145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég skil ekki þennan ótta við að taka málið á dagskrá og greiða atkvæða um það og þá kemur í ljós hér í þingsal hvort meiri hlutinn styðji þetta mál eða ekki. Mig langar líka að vekja athygli á því, forseti, að ég var að hlusta á fréttir frá löndunum í kringum okkur þar sem bankastjórar hafa verið kallaðir fyrir þingnefndir bæði í Noregi og Danmörku til þess að fá úr því skorið hvort þeir séu enn með slíka starfsemi sem hefur komið í ljós að er mjög víðtæk þar, en sérstaklega á Íslandi. Mér finnst þingið hér ekki hafa tekið á þessu máli nægilega föstum tökum. Við erum með stærstu fréttirnar í kringum þetta út af því að hneisan er mest hér og við gerum bara ekki neitt.