145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Samkvæmt skilgreiningu hv. þm. Sigríðar Andersen þá hefði þessi rannsókn hér ekki átt sér stað, Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir. Þetta eru átta bindi. Þau eru öll góð og öll mikilvæg. Þarna steig Alþingi nefnilega fram á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. En í gær mælti hæstv. forseti þingsins fyrir einmitt slíku máli, þ.e. um rannsóknarnefndir á vettvangi og í nafni Alþingis Íslendinga. Þannig að það er vandræðalegt að þurfa að standa í slíku orðaskaki um grundvallaratriði við þingmenn Sjálfstæðisflokksins þegar um það er að ræða að víkja sér undan skýrri kröfu og réttu hlutverki Alþingis Íslendinga þegar svo alvarlegir hlutir eru uppi, sem er að taka málið upp á sína arma og leiða það til lykta. Það er alvarlegt að hv. þm. Sigríður Andersen talar hér greinilega fyrir því sem félagar hennar hugsa, (Forseti hringir.) að þetta komi okkur ekki við.