145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:23]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og hefði mátt árétta fyrr í þessari umræðu í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta að hér í gær var einmitt mælt fyrir frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir Alþingis. Það er sjálfsagt og eðlilegt að það fái framgang enda held ég að samstaða sé um það í þessum þingsal að málið sé brýnt og mikilvægt að vandað sé til verka þegar menn sammælast um að eðlilegt sé að Alþingi hlutist til um rannsóknir á málum, stórum hagsmunamálum þjóðarinnar.

Það má hins vegar velta því hvort til dæmis skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem hér var veifað og kostaði á annan milljarð kr. ásamt fleiri skýrslum stuttu eftir hrun hafi þjónað tilgangi á þeim tíma. Það sama má segja um það mál sem hér er til umræðu. En það breytir því ekki allt að einu (Forseti hringir.) að í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir er sérstaklega fjallað um það og áréttað að sú rannsókn eigi að vera grundvöllur og forsenda (Forseti hringir.) fyrir endurálagningu skatta. Það stenst ekki þrískiptingu ríkisvalds.