145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[16:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka virðulegum forseta fyrir að koma þessu mál á dagskrá. Ég hafði nefnt það í umræðum um Ríkisútvarpið á síðasta ári, í desember, að vel færi á því að mínu mati að þegar samningur milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins lægi fyrir kæmi hann til þings svo að þingmenn hefðu tækifæri til þess að ræða hann.

Ég mun tæpa á helstu atriðum sem ég tel að skipti máli varðandi þennan samning, m.a. borið saman við síðustu samninga, en um leið horfa til þeirra almennu áhersluatriða sem hér birtast. Uppleggið er það að í þessum samningi skuli skilgreina nánar hlutverk skyldur og umfang starfsemi Ríkisútvarpsins við framkvæmd fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í öðru lagi er samningnum ætlað að setja fram sérstök markmið sem snerta lýðræðis-, samfélags- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins. Í þriðja lagi er ætlunin að kveða á um fjármögnun Ríkisútvarpsins, upplýsingagjöf, miðlun o.s.frv.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á þeim þætti sem snýr að framboði, þjónustu og umfangi starfsemi. Þar eru taldir upp þeir efnisflokkar sem getið er um í lögum sem skulu vera í dagskrá Ríkisútvarpsins. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli þingsins á því að tekið er fram í samningnum að dagskrá Ríkisútvarpsins skuli vera með sambærilegum hætti og umfangi og var árið 2015, að teknu tilliti til tekna og gjalda, þannig að dagskrárframboðið og þjónustan geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við framangreint ár. Vísa ég hér til umræðna sem voru á síðasta þingi um þá stöðu sem upp var komin þar sem útvarpsgjaldið var ákveðið 16.400 kr. með lögum.

Í þeirri umræðu sem snýr að framboði, þjónustu og umfangi starfseminnar vil ég sérstaklega vekja athygli á því, sem er nýmæli, að í þessum samningi er sérstaklega kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli ávallt gæta að samkeppnissjónarmiðum. Það er sérstaklega tekið fram og það tel ég að sé til bóta.

Hvað varðar sérstök markmið með samningnum þá eru þau eftirtalin: Í fyrsta lagi menningarhlutverkið. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisútvarpið skal á gildistíma samningsins leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og færa menningarefni framar í forgangsröðun í dagskrá.“

Annar þáttur, sem er mjög mikilvægur, er aukin kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Í samningnum segir, virðulegi forseti, með yðar leyfi:

„Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skal Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðendur að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum og öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skal verja til þess að lágmarki 8% af heildartekjum á árinu 2016, 9% árið 2017, 10% árið 2018 og 11% árið 2019.“

Hér er um umtalsverða aukningu að ræða borið saman við það sem er í öðrum samningum. Legg ég áherslu á og vek athygli á að hér er um að ræða heildartekjur en ekki ríkisframlagið eins og áður var lagt til grundvallar varðandi þessa útreikninga.

Þá vek ég sérstaklega athygli á og fagna mjög, tel að það sé mikið framfaraskref, að innan Ríkisútvarpsins verður stofnuð sérstök eining undir nafninu RÚV-myndir. Hlutverk RÚV-mynda er að stuðla að auknu framboði á leiknu íslensku gæðaefni. Þessari einingu skal stýrt af sérstöku fagráði sem útvarpsstjóri skipar og ber því að starfa eftir gegnsæjum og faglegum starfsreglum. Ríkisútvarpið skuldbindur sig til þess að veita 200 millj. kr. hið minnsta til kaups eða meðframleiðslu á slíku efni í gegnum RÚV-myndir.

Einnig er í samningnum gert ráð fyrir aukinni áherslu á íslenskt efni fyrir börn. Síðan er lögð áhersla á að breyta forgangsröðun erlends sjónvarpsefnis, draga úr engilsaxnesku efni, en auka hlutfall sjónvarpsefnis frá Norðurlöndum og er getið um það í hundraðstölum. Lögð er áhersla á varðveislu og miðlun eldra efnis, þ.e. Gullkistu Ríkisútvarpsins, og lagt upp með að kostnaðargreind áætlun liggi fyrir um það hvernig þar skuli farið með.

Lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins er mikilvægt. Í samningnum eru ákvæði um fréttaþjónustuna sem er í sjálfu sér í góðu samræmi við fyrri samninga. Meðal annars litast þau af þeim kosningum sem fram undan eru, m.a. forsetakosningum; hvernig Ríkisútvarpið muni fjalla um slíkar kosningar, hvernig verði staðið að umfjöllun um stjórnmálaframbjóðendur og flokka og annað slíkt. Ég tel til bóta að það sé komið fram með nokkuð skýrum hætti og skýrari en áður hefur verið.

Hvað varðar aðgengismál þá skal Ríkisútvarpið leitast við að nýta sér tæknilegar lausnir til að tryggja aðgengi þeirra sem eru ófærir um að nýta sér þjónustu með hefðbundnum hætti. Þetta skiptir máli og er meðal annars horft til þeirrar nálgunar sem við sjáum á sambærilegum stöðum á Norðurlöndunum.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á lið 2.3.2 í samningnum sem er þjónusta við landsbyggðina. Þar er lagt upp með að leitast skuli við að halda áfram að efla fréttaflutning og dagskrárgerð af landsbyggðinni.

Hvað varðar öryggismál og almannahlutverk þá er það nýmæli að Ríkisútvarpið skuli starfa eftir öryggisstefnu. Útvarpsstjóri skal skipa öryggisnefnd sem ber ábyrgð á öryggismálum Ríkisútvarpsins. Hún skal að fengnu áliti og í samstarfi við almannavarnir og aðrar viðeigandi stofnanir útbúa öryggisstefnu Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið getur náð fram auknu samstarfi við aðrar stofnanir eins og almannavarnir og ríkislögreglustjóra um Neyðarlínu, þá getur Ríkisútvarpið samið um samstarf um hvað varðar framfylgni á öryggisstefnu Ríkisútvarpsins.

Hér er ákvæði um jafnan rétt karla og kvenna og málstefnu. Það er nýmæli í kaflanum um innra eftirlit og gæðamál, en um slíkt er kveðið á í lögum. Þar er núna farið nánar út í þá þætti. Þar er kveðið á um að stjórn Ríkisútvarpsins skuli setja sér starfsreglur. Gert er ráð fyrir því að settar séu siðareglur — og það hefur verið gert og unnið af starfsmönnum Ríkisútvarpsins — sem skuli gerðar aðgengilegar almenningi. Stjórn Ríkisútvarpsins skal setja reglur um innra eftirlit og gæðamál og þær skal birta fyrir 1. nóvember. Ég vil vekja sérstaka athygli, virðulegi forseti, á þeim þætti að allar lausar stöður skuli auglýstar og ráðið skuli í þær eftir opnu, faglegu og gagnsæju ráðningarferli, jafnframt skuli gætt að því að verktakar séu ráðnir í opnu, faglegu og gagnsæju ferli.

Hvað varðar fjármögnun þá skiptir máli að tekin eru af öll tvímæli um að lagt er upp með það fjármagn sem er tryggt til Ríkisútvarpsins miðað við árið 2016, að það lækki ekki að raunvirði á tímabilinu. Gangi þær forsendur ekki eftir, ef meiri hluti Alþingis hyggst víkja frá því, þá eru hér ákvæði sem er þannig að hvorum samningsaðila er heimilt að fara fram á að samningur verði tekinn upp ef forsendur breytast. Í því samhengi vil ég vekja sérstaka athygli á 3. kafla um fjármögnunina. Þar er fjallað um þær 175 millj. kr. sem árið 2016 var sérstaklega veitt til Ríkisútvarpsins til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Þar kemur fram að ef ekki verður áframhald á (Forseti hringir.) þeirri fjárveitingu þá fellur skuldbinding Ríkisútvarpsins um aukaframlag til leikins efnis niður.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti hyggst ég ekki fara nánar ofan (Forseti hringir.) í þessa þætti. Ég bendi á að ég tel að þessi samningur sé mun ítarlegri en áður hefur verið og sé þar með líka betra stjórntæki fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og stjórn til þess að vinna eftir.