145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[16:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í hinu breiða pólitíska samhengi eru auðvitað skiptar skoðanir um það yfir höfuð hvort ríkið eigi að reka fjölmiðil eða ekki. Það er vissulega áhugaverð umræða en ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að ef við ætlum að hafa ríkisútvarp, sjónvarp, ríkisfjölmiðil, þá sé ekkert vit í öðru en að gera það vel, annað er náttúrlega sóun á peningum. Mér finnst þessi þjónustusamningur bera því vitni að menn eru á þeirri skoðun og vilja setja sér metnaðarfull markmið. Hins vegar hefur ýmislegt gerst á þessu kjörtímabili og undanförnum árum sem gera mann tortrygginn gagnvart því hvort menn séu allir á sömu blaðsíðunni varðandi það hvort við getum myndað sátt um Ríkisútvarpið.

Það fyrsta sem var gert á kjörtímabilinu var að gera stjórnina aftur pólitíska. Mér fannst það skref aftur á bak. Mér fannst líka mjög slæmt að fyrst hún var gerð pólitísk skyldu ekki allir flokkar á Alþingi hafa fulltrúa í stjórninni, svo að það sé sagt strax í upphafi. Ég vona að þetta verði leiðrétt við næsta stjórnarkjör á Alþingi, sem mun eiga sér stað bráðlega. Það er alla vega lágmark að í stjórninni séu fulltrúar allra sjónarmiða á þingi fyrst hún er aftur orðin pólitísk.

Svo hefur mér fundist mjög slæmt hvernig hefur verið vegið að sjálfstæði stofnunarinnar en sjálfstæði stofnunarinnar er algjört lykilatriði í því að hún sé góð, held ég að mér sé óhætt að segja. Það hefur verið vegið að sjálfstæðinu með stöðugum hringlandahætti varðandi fjárveitingar til stofnunarinnar. Þetta er mjög slæmt. Þetta skapar einfaldlega það andrúmsloft að stjórnmálamenn í áhrifastöðum í þessum sal geta kerfisbundið vegið að sjálfstæði stofnunarinnar og þar með grafið undan henni. Það er algjört lykilatriði þegar kemur að ríkisreknum fjölmiðlum á Íslandi, og hvar annars staðar sem þeir kunna að vera, að það sé tryggur fjárhagslegur grundvöllur og hann sé markaður til margra ára og menn geti gengið að honum vísum, alla vega hvað varðar fjárveitingar frá hinu opinbera, og það sé ekki mikið verið að krukka í það. Þetta hefur ekki tekist á kjörtímabilinu, því göfuga markmiði hefur ekki verið náð.

Hins vegar eru vísbendingar um það í þjónustusamningnum að menn hafi séð ljósið í þessu. Þar er kveðið á um að fjárframlög til Ríkisútvarpsins skuli ekki lækka að raungildi miðað við þetta ár til 2019. Það er gott. Það er gott hvað varðar hinn fjárhagslega fyrirsjáanleika og stöðugleika sem þarna er fenginn en hins vegar er dökka hliðin á þessu að þarna er miðað við árið 2016, sem er auðvitað ár þar sem útvarpsgjaldið var lækkað. Það slær aðeins á metnaðinn í þjónustusamningnum. Hins vegar er þetta mjög mikilvægt og örugglega það mikilvægasta sem hver ríkisfjölmiðill getur fengið, þ.e. fyrirsjáanleiki í framlögum.

Það vakna spurningar þegar kemur að þessu. Það er talað um að framlögin frá ríkinu eigi ekki að lækka eða að útvarpsgjaldið eigi ekki að lækka að raunvirði. Ég geri ráð fyrir að það sé miðað við neysluvísitölu eða eitthvað slíkt en það koma aðrir þættir inn í. Það er til dæmis horft á það hvort framlög til annarra stofnana hækki eða lækki. Hvaða þýðingu hefur það í þessu samhengi? Hvaða þýðingu hafa væntanlegir eða hugsanlegir kjarasamningar sem verða gerðir á tímabilinu? Það er í sjálfu sér engin trygging í því fólgin fyrir Ríkisútvarpið að geta tekist á við óvænt útgjöld. En engu að síður er þetta jákvætt skref og vonandi heldur það. Vonandi verður fyrirsjáanleiki í framlögum til Ríkisútvarpsins á komandi árum svo ekki verði vegið að sjálfstæði stofnunarinnar með alls konar kænskubrögðum í þingsal og alls konar tilburðum til að minnka framlögin héðan.

Svo er líka annar óvissuþáttur hvað varðar fjármögnun sem er sérstakt framlag til efniskaupa, 175 millj. Eins og ég skil það er engin trygging fyrir því í þjónustusamningnum að það framlag haldi. Það er einstaklega slæmt fyrir sjálfstæða framleiðendur í landinu, kvikmyndaiðnaðinn, að geta ekki gengið að því sem vísu að þetta framlag verði árlegt út samningstímann. Óvissan er slæm í þessu eins og öðru.

Mér finnst samningurinn góður að forminu til. Það eru skýr markmið í honum. Ég held að hann sé gagnsær að því leyti að menn ættu að geta leitað í hann og athugað hvort þeir hafi náð markmiðunum, sem eru góð, um þjónustu við landsbyggðina, um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins, um aðgengi allra, um Krakka-RÚV, sem hefur verið nefnt, og um ýmsa þjónustu sem við viljum að sé fyrir hendi.

Ég fagna sérstaklega að gefa eigi í varðandi kaup á innlendu efni og framleiðslu á leiknu íslensku efni. Ég held að þetta muni verða þróunin og það hefur verið þróunin í nágrannaríkjunum að hlutfall þessa þáttar í starfsemi ríkisfjölmiðla hefur stækkað mjög mikið og er í sumum löndum, að ég held, kominn í allt að 30% af heildarumfangi ríkisfjölmiðils. Þetta held ég að verði klárlega þróunin og blessunarlega. Við sjáum mjög metnaðarfulla þróun í nágrannalöndunum, eins og t.d. í Danmörku þar sem danska ríkissjónvarpið framleiðir mjög flott efni sem er keypt á heimsvísu. Vonandi nær Ríkissjónvarpið líka að festa sig í sessi sem framleiðandi og kaupandi á metnaðarfullu og góðu íslensku efni. Það er án efa hárrétt stefnumörkun.

Svo aðeins um Gullkistu RÚV. Þetta er ágætisnafn vegna þess að í gömlu efni sem Ríkisútvarpið á og hefur safnast upp í gegnum tíðina er fólginn fjársjóður. Þarna hef ég smá áhyggjur. Í þjónustusamningnum er aðeins kveðið á um að gera eigi einhvers konar kostnaðarmat á því hvað það kostar að varðveita allt þetta efni og koma því á stafrænt form. Ég held að menn séu svolítið að fresta vandanum. Ég held að það blasi við (Forseti hringir.) ógnarstórt verkefni og tíminn er óvinur okkar í því. Þetta efni er að skemmast (Forseti hringir.) og það yrði hryllilegt fyrir menningararfleifð landsins ef það mundi gerast. Ég held að menn þurfi að mynda þverpólitíska samstöðu um að gefa í og koma þessum fjársjóði, (Forseti hringir.) gullkistunni, í stafrænt skjól.