145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að komin sé niðurstaða í viðræður um þjónustusamning RÚV þremur mánuðum eftir að síðasti samningur rann út. Samningurinn er ekki alslæmur, þó það nú væri. Hið góða við samninginn hefur þegar verið rakið í ræðum annarra hv. þingmanna sem töluðu á undan mér og því hyggst ég einungis taka undir orð þeirra í stað þess að endurtaka þau.

Það eru nokkur atriði í samningnum, forseti, sem ég óska eftir að hæstv. ráðherra geri betur grein fyrir svo að hægt sé að fyrirbyggja misskilning og mér finnst vert að vekja athygli á. Ég spyr hvað átt sé við nákvæmlega hér, með leyfi forseta:

„Í þágu gæða og fagmennsku er einnig gert ráð fyrir að starfsfólk Ríkisútvarpsins starfi eftir siðareglum og að fréttareglur fréttastofu verði uppfærðar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um hlutleysisskyldu fréttastofu og að ólík sjónarmið komi fram.“

Mig langar að vita hvort eitthvað í fyrri störfum fréttastofu kalli á slíkar áherslur, forseti. Af hverju er tekið sérstaklega fram að allt efni sem ætlað sé börnum og ungmennum sé óhlutlægt, sé óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum? Er eitthvað sem kallar sérstaklega á þessar kvaðir, forseti? Eru þetta viðbrögð við einhverjum sérstökum tilvikum?

Ég hef áhyggjur af RÚV og er með sanni ekki sú eina sem hefur áhyggjur af þeirri aðför að tjáningarfrelsinu sem endurspeglast í siðareglum RÚV. Því til útskýringar langar mig að vísa í orð blaðamannsins Jakobs Bjarnars Grétarssonar, með leyfi forseta:

„Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því í hverju gagnrýnin á þessar glórulausu siðareglur RÚV felst. Margir falla sjálfkrafa í einhvern meðvirkni- og varnargír þegar RÚV er annars vegar. Og það sé nú bara gott að blaðamenn séu kurteisir og hlutlausir.

Starfsfólk RÚV er ekkert endilega rétta fólkið til að teljast marktækt um þessa skelfingu; þessa sem félagar þeirra skrúfuðu saman. Kerfið funkerar þannig að það gerir fólk samdauna sér og það á við í þessu sem öðru.

Aukinheldur: Þetta er ekki einkamál þeirra. Þetta snýst ekki um hvort einhver hafi skrúfað niður í skoðanaríkum Helga Seljan, sem verið er að gera hvað sem hann segir, eða að við verðum af pistlum Eiríks Guðmundssonar sem mér persónulega finnst afleitt. Hér er talsvert miklu meira í húfi.

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Ýmis önnur ákvæði þarna eru hin undarlegustu, en þetta hefur vakið mesta athygli því að það virðist hreinlega stangast á við stjórnarskrá. Það er mikill munur á því að beina slíkum tilmælum til starfsmanna, að því gefnu að forsendur séu réttar, og svo því að skrá þær í formlegar siðareglur.

Hlutleysi getur ekki falist í því að berja niður skoðanir eða krefjast þess að fólk pukrist með þær. Ég skelfist hreinlega fólk sem hugsar, eða hugsar bara alls ekki neitt, eftir slíkum leiðum. Grundvallaratriði, ef það á að vera snefill af viti í þessari umræðu, er að menn kunni að gera greinarmun á persónulegum skoðunum blaðamanna og svo faglegum vinnubrögðum. Mönnum ber að finna gagnrýni sinni stað í fréttum og umfjöllun en ekki í einhverju sem til dæmis var sagt einhvern tíma á Facebook.

Marklaus gagnrýni, sem byggir á ranghugmyndum og vanþekkingu, er gerð gild; þeir sem eru í vanda fara alltaf fyrst í það að gera fréttamennskuna tortryggilega. Nú er það hægur leikur.“

Mér finnst þetta mjög hættuleg þróun. Mér finnst óþægileg þessi krafa frá ráðuneytinu um siðareglur og hvernig þeim var háttað. Kannski út af því sem kemur fram í því sem ég vitnaði í í fyrri ræðu minni og er tengt við siðareglurnar. Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra, sem ég veit að er víðsýnn maður, hvort honum finnist þetta ekki háskaleg vegferð.

Mig langar líka að koma aðeins inn á hið stafræna sjálf RÚV og þau vonbrigði sem ég fundið fyrir, að ekki sé settur meiri þungi í að byggja þetta stafræna sjálf upp, hvort sem það er stafræn hlið vefs og fréttaþjónustu Ríkisútvarpsins, sem þó hefur margt gott verið gert í nýverið, og síðan að ekki eigi að nýta sér það sem býr í Gullkistunni. Það er hreinlega dapurlegt og það er stórhættulegt menningararfleifðinni að slá því á frest. Nú þegar hefur mikið glatast af menningarsögu okkar sem var geymd hjá RÚV út af því að það hreinlega skemmdist. Ég er áhyggjufull yfir því að ekki eigi að gefa í og mig langar að vita af hverju ekki er lögð meiri áhersla á það.

Ég hef átt í samræðum við hæstv. ráðherra um mikilvægi Gullkistunnar og stafræna þjónustu hjá RÚV. Mér hefur alltaf heyrst að við værum sammála, þannig að það kemur mér svolítið á óvart að ráðherra, sem hefur mikinn áhuga á menningu og er ráðherra menningar, skuli ekki leggja meiri áherslu á að varðveita okkar gömlu menningu betur.

Mig langar líka að benda þeim sem hafa áhuga á að kynna sér ólík sjónarmið varðandi þennan samning að kynna sér ályktun frá Hollvinum Ríkisútvarpsins sem mér finnst mikilvægt að halda til haga. Ég hef því miður ekki tíma til að rekja hana hér, en það má finna hana á Facebook-síðu félagsins. Hvet ég sem flesta sem unna Ríkisútvarpinu til að láta sig þau málefni varða í gegnum Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins.