145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst í þessari umræðu þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að koma með inn í þingið þjónustusamning við Ríkisútvarpið í fyrsta sinn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að umræða um þjónustusamning fari fram í þingsal og hér sé mörkuð afstaða til hans og hæstv. ráðherra heyri hana. Ég held að þetta sé líka mikilvægt til að losa Ríkisútvarpið úr þeirri úlfakreppu stjórnmálalegra átaka sem hefur einkennt umgjörðina um það þetta kjörtímabil. Við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru. Ríkisútvarpið hefur búið við skipulegt einelti af hálfu afla innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég ætla ekki að setja hæstv. menntamálaráðherra í þann hóp og ég ætla ekki að setja alla stjórnarþingmenn í þann hóp, en ráðandi öfl í flokkunum hafa komið fram með algjörlega óásættanlegum hætti gagnvart Ríkisútvarpinu. Nú þegar Ríkisútvarpið hefur leikið lykilhlutverk í því með okkur að upplýsa um fjárhagsupplýsingar ráðamanna sem leynt áttu að fara þá sjáum við enn betur en nokkru sinni áður mikilvægi frjálsrar og öflugrar fjölmiðlunar í landinu og hversu óhemju mikilvægt er að standa vörð um Ríkisútvarpið. Ég þykist kenna í ræðum talsmanna stjórnarflokkanna í fyrri hluta þessarar umræðu annan tón, allt annan tón í garð Ríkisútvarpsins en gætt hefur í umræðum undanfarin ár. Ég ætla að leyfa að mér að vona að það boði gott og að þau öfl sem hafa einbeitt sér að hatursherferðinni gegn Ríkisútvarpinu innan stjórnarflokkanna hafi nú verið snúin niður. Ég ætla að leyfa mér að vona það.

Í umræðunni hefur aðeins verið fjallað um siðareglurnar og umgjörð þeirra og vil ég leggja áherslu á það að Ríkisútvarpið fái vernd fyrir umræðu af því tagi sem hefur verið ráðandi í stjórnmálalífinu á undanförnum árum í framtíðinni. Leiðin til þess held ég að sé sú, eins og ég hef áður viðrað úr þessum ræðustól, að Ríkisútvarpinu verði búin alþjóðleg vernd, þ.e. að alþjóðlegar stofnanir eins og Danmarks Radio eða BBC, sérfræðingar þaðan, sitji með Ríkisútvarpinu og útbúi með því siðareglur en votti jafnframt að það verklag sem Ríkisútvarpið hefur í heiðri sé í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og hlutleysiskröfur og verji þannig í reynd Ríkisútvarpið fyrir andlegu ofbeldi eins og það hefur mátt sæta af öflum innan stjórnarflokkanna á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu að þessi samningur er til vitnis um þann aðdáunarverða metnað og nýbreytni sem við höfum séð í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins á undanförnum missirum, skýra stefnu sem ég held að sé mjög mikilvæg. Má kannski benda aðallega á þrjá þætti, eins og hér hefur mikið verið fjallað um; innlenda leikna dagskrárgerð, dagskrárgerð fyrir börn, sem er auðvitað forsenda máltöku barna sem búa í allt öðru alþjóðlegu stafrænu umhverfi en börn bjuggu í fyrir tíu árum síðan, svo ekki sé farið lengra aftur í tímann, og í þriðja lagi fréttaflutningur af landsbyggðinni. Það er mjög mikilvægt að undirstrika varðandi umgjörð fjármála Ríkisútvarpsins, þar sem við höfum í stjórnarandstöðunni stutt við hæstv. fjármálaráðherra gegn tregðulögmálsöflum í hans eigin stjórnarflokkum, að það liggur í augum uppi að fjármögnunin dugar ekki til að finna þessum áhersluatriðum fullnægjandi endurspeglun í dagskránni í framtíðinni. Við sjáum fram á verulegan samdrátt í dagskrá á næstu árum og þetta kemur best í ljós í þjónustusamningnum þegar vísað er til skilyrta framlagsins upp á 175 milljónir, með öðrum orðum er einskiptis skilyrt framlag skilgreint þannig í samningnum að ef það falli niður þá detti niður skyldur Ríkisútvarpsins til leikinnar dagskrárgerðar. Ekkert sýnir betur að núverandi fjárhagsumgjörð er ekki sjálfbær.

Ég vil þess vegna hvetja hæstv. menntamálaráðherra áfram til dáða í því að styðja við þessa fjárhagsumgjörð að öðru leyti. Við skulum styðja hann í að fjármagna rekstrarramma fyrir Ríkisútvarpið sem gerir því kleift að sinna þessum mikilvægu verkefnum. Ég held að stofnunin hafi sýnt eindreginn áhuga á að taka á allri óráðsíu í rekstri og laga allt sem aflaga hefur farið. Það er engin leið að hafa nokkuð upp á stofnunina að klaga lengur.