145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum þjónustusamning hæstv. ráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu fyrir árin 2016–2019. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta yfirlit og tækifærið sem við fáum hér til að ræða þennan mikilvæga samning. Ég ætla að rýna og ræða samninginn í samhengi við lögin og draga fram það sem er markvert í honum. Hann er þó það viðamikill og margt jákvætt sem hægt er tala um, eins og komið hefur fram í ræðum margra hv. þingmanna, að það verður að tína það helsta til.

Í 2. gr. laga um Ríkisútvarpið er fjallað um eignarhald og samning um fjölmiðlun í almannaþágu. Á grundvelli þeirrar lagagreinar er þessi samningur gerður. Þar segir meðal annars að í samningi skuli nánar kveðið á um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar samkvæmt 1. og 3. gr. laganna. Í honum skuli einnig kveða á um fjármögnun fjölmiðlunar í almannaþágu á öllu samningstímabilinu.

Ég vil segja um fjármögnun að samkvæmt 14. gr. laganna er fjármögnun tryggð og fullt samræmi þar, en það er nýmæli í samningum að fjármagnið skuli halda raunvirði sínu á tímabilinu miðað við árið 2016. Það er mjög jákvætt og umfram lagalegar kvaðir og finnst mér það styrkur í samningnum.

Í lagarammanum eru forsendur samningsins nokkuð skýrt afmarkaðar, mikilvægar forsendur slíkrar samningsgerðar. Í 1. gr. laganna er fjallað um hlutverk Ríkisútvarpsins og segir að markmið þess sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Einnig segir að Ríkisútvarpinu sé falin framkvæmd eins og nánar sé kveðið á um í lögunum.

Ég vildi draga fram að vissulega eru markmiðin og hlutverkið háleitt en um leið er þetta mjög huglægt og ekkert óeðlilegt að á hinum pólitíska vettvangi skapist oft umræða sem tengist álitamálum um umfjöllun, hlutverkið er þannig séð krefjandi og víðtækt. Í slíkum samningi reynir á efnisval, framsetningu efnis og upplýsingagjöf, miðlun og tegund miðlunar og ekki síst framkvæmdina og hvernig henni er háttað. Þar ber að taka tillit til þeirra hræringa og breytinga sem eru á þessum markaði.

Þess má sjá stað í 3. gr. laganna sem fjallar ítarlega um hlutverkið og skyldurnar, almannaþáguhlutverkið, lýðræðishlutverkið, menningarhlutverkið og faglega starfshætti, kröfur okkar um faglega starfshætti. Í lögunum er lögð áhersla á hið almenna hlutverk miðlunar til allra landsmanna óháð búsetu, að dreifa skuli efni með a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá og síðan er það öryggishlutverkið. Þar er jafnframt kveðið á um varðveislu efnis með áherslu á sögulegt og menningarlegt gildi.

Efnisvalið í samningnum er nokkuð vel tilgreint. Þar skulu vera á dagskrá fréttir og fréttaskýringar, lista- og menningarþættir og efni fyrir börn og ungmenni. Ég ætla að fagna því sérstaklega hversu mikil áhersla er á efni fyrir börn og fjölskylduefni í samningnum.

Í öðru lagi ætla ég að ræða lýðræðishlutverkið og hvernig skuli staðið að því í lögunum. Það er nokkuð niðurnjörvað í grundvallarreglum umfram það sem kveðið er á um í samningnum sjálfum, en hlutlægniþáttinn held ég að ég verði að draga fram hér. Í samningnum er í fyrsta sinn gert ráð fyrir virku innra eftirliti og áherslu á gæðamál, sem er mjög athyglisvert þar sem stjórn Ríkisútvarpsins er gert að setja reglur sem kveða á um slíkt eftirlit með hlutleysis- og sanngirnisskyldu. Ég held að mjög markvert skref sé tekið hér.

Varðandi menningarhlutverkið vil ég segja að það er auðvitað margt undir þar; tungan, sagan, arfleifðin og náttúran. Mér finnst mikilvægt í samningnum að áhersla er á aukið samstarf við Kvikmyndamiðstöð og sjálfstæða framleiðendur við gerð íslensks leikins myndefnis.

Þegar við hugum að lýðræðislegu hlutverki og starfsháttum er ekki annað hægt að segja en að veruleg viðleitni sé sýnd í samningnum til að mæta þeirri lögbundnu kröfu. Þar má nefna siðareglur starfsfólks Ríkisútvarpsins sem eru að fyrirmynd danska ríkissjónvarpsins. Jafnframt er kveðið skýrt á um virkt innra gæðaeftirlit sem ég kom inn á áðan.

Tíminn flýgur frá mér. Ég ætla að tiltaka þá liði sem er vert að nefna, eins og RÚV-myndir. Dagskrárgerð á landsbyggð er efld og tryggð og varðveisla og miðlun eldra efnis og hvet ég hæstv. ráðherra til að klára það mál eins og kveðið er á um í samningnum.

Ég vil segja í lokin að ég hef reynt að rýna þennan samning út frá lagaskyldu um markmið og hlutverk. Ég fagna þeim nýmælum sem hér er að finna, sem eru til þess fallin að Ríkisútvarpið verði áfram fært um að rækja hlutverk sitt (Forseti hringir.) sem sjálfstæður, óháður og faglegur miðill.