145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[17:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þjónustusamning hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra við Ríkisútvarpið til ársins 2019. Þessi þjónustusamningur er því miður niðurskurðarsamningur þar sem hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála ákveður að draga úr fjárveitingum til almannafjölmiðilsins sem er í eigu almennings og í þjónustu almennings. Það er sorglegt svo að ekki sé meira sagt, sér í lagi á tímum þegar brýn nauðsyn er á upplýstri og vandaðri samfélagsumræðu og fréttaflutningi.

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að búið er að ákveða fjárveitingar til Ríkisútvarpsins í fjárlögum fyrir árið, en í þeim þjónustusamningi sem við ræðum um er því ekki einu sinni lýst yfir af hálfu ráðherra að hann hafi vilja til eða áhuga á að tryggja aukna fjármögnun til almenna fjölmiðilsins. Það hefði hæstv. ráðherra getað gert og sýnt um leið í áherslum sínum í samningnum að andstaða hans, sem hann lýsti yfir við lækkun nefskatts RÚV til handa, hefði verið raunveruleg andstaða, að hann stæði raunverulega með almannafjölmiðlinum og mundi berjast fyrir tryggri fjármögnun.

Það eru önnur atriði sem ég tel gagnrýnisverð í þjónustusamningi ráðherra við Ríkisútvarpið. Það er meðal annars hvernig stjórnmálamenn og þar með hæstv. ráðherra sjálfur hafa beintengt þjónustusamninginn við nýjar siðareglur fyrir fréttamenn og fréttastofu. Það tel ég afar varhugavert. Allra heilbrigðast væri að pólitískt skipuð stjórn og framkvæmdastjórn, og/eða aðrir yfirmenn Ríkisútvarpsins á borð við ráðherra sjálfan, hefðu engin afskipti af siðareglum fréttamanna. Bið ég þá frekar um að félagar í Félagi fréttamanna fengju sjálfir að semja sínar eigin siðareglur og best væri, ef ég má leggja til hugmynd inn í það verkferli, að helstu sérfræðingar í siðfræði og fjölmiðlun kæmu þar að.

Annað atriði sem ég vil vekja athygli á og tel því miður ekki nógu gott í þessum þjónustusamningi er að í honum eru eyrnamerktar heilar 175 milljónir til sjálfstæðrar framleiðslu á sjónvarpsefni eða til útvistunar á framleiðslu. Eðlilega mótmæltu allir framkvæmdastjórar Ríkisútvarpsins þessari ákvörðun ráðherrans. Enda þó að það sé góð ákvörðun að styðja við innlenda sjónvarps- og kvikmyndagerð þá er það mín skoðun að það eigi að koma úr öðrum fjárlagaliðum en í skilyrtri einskiptisgreiðslu. Hefði ekki verið betra að styðja betur við sjónvarpsframleiðslu Ríkisútvarpsins sem unnin er af hálfu starfsfólksins sem þar vinnur og er einn mikilvægasti vinnustaður fólks sem vinnur við sjónvarpsgerð? Hvað þýðir þetta varðandi starfsöryggi fólksins sem vinnur við framleiðslu hjá sjónvarpinu?

Að lokum vil ég nefna það sem mér finnst jákvætt í þessum þjónustusamningi og það er áherslan á íslenskt efni fyrir börn. Eins og við vitum flest þá er yfirheiti þeirrar þjónustu Krakka-RÚV. Þar tel ég vera stigin afar mikilvæg skref til að tryggja börnum og unglingum val á úrvalssjónvarpsefni. Það er framtíðarákvörðun sem ég tel að útvarpsstjóri eigi mestan heiður af og þakka ég honum vel fyrir þær áherslur og að standa vörð um þær. Það eru líka fleiri sem eiga þakkir skilið, það er starfsfólk Ríkisútvarpsins. Það á miklar þakkir skilið fyrir þrautseigju og dugnað á niðurskurðar- og uppsagnartímum í tíð núverandi ríkisstjórnar; fyrir að hafa staðist þær atlögur sem hafa beinst að þeim úr öllum áttum frá stjórnarþingmönnum.

Starfsfólk RÚV: Ég þakka ykkur kærlega fyrir að bera borð okkar úrvalsfjölmiðlun við erfið starfsskilyrði. Vonandi sjáum við betri tíma fyrir Ríkisútvarpið í nálægri framtíð.