145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[17:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa náð þeim áfanga að leggja frumvarpið hér fram. Framsaga hennar fyrir málinu var prýðileg. Ég ætla ekki að spyrja hana út í tæknileg atriði sem varða frumvarpið sjálft. Ég þekki þau vel og ég ætlast ekki til að ráðherra kunni skil á því öllu. Eitt langar mig þó til að spyrja hana um, þ.e. tiltekna breytingu sem hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin gerði frá tillögum nefndarinnar. Sú breyting felst í því að í 6. mgr. 45. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra fá heimild til að setja sérstakar reglur sem takmarki fjölskyldusameiningu og sérstaklega er tekið fram að setja megi ákveðin tímamörk sem eru sex mánuðir.

Herra forseti. Ég dreg mjög í efa að rétt sé að gera þetta og ég dreg mjög í efa að þetta samræmist mannréttindasáttmála Evrópu og vísa sérstaklega til 8. gr. þar sem skýrt er kveðið á um réttinn til þess að hver einstaklingur eigi heimili og fjölskyldu. Ég spyr hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Hvaða ástæður eru fyrir því að þessi breyting var gerð frá tillögu nefndarinnar? Í öðru lagi: Telur hæstv. ráðherra virkilega að þetta standist ákvæði mannréttindasáttmálans?