145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ráðuneytið hefur auðvitað líka verið í samskiptum við Norðurlöndin vegna þessara breytinga. Ég ætla ekki að standa hér og úttala mig endanlega um það hver niðurstaðan yrði í framtíðinni, ég ætla ekki að gera það. En eins og ég skil þetta mál þá telja menn, sem gerst þekkja, að þarna sé ekki gengið of langt. Þessar tillögur hafa verið til umfjöllunar, bæði í Svíþjóð og Finnlandi og reyndar víðar.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er eitt af þeim atriðum sem menn munu vilja skoða vel. Ég geri ráð fyrir að nefndin muni gera það. Ég legg líka áherslu á að þetta ákvæði er ákveðinn öryggisventill. Þetta er ekki meginregla. Þetta er öryggisventill sem að mati ráðuneytisins var rétt að hafa í frumvarpinu.

Enn og aftur: Ég tel reyndar að þróun löggjafar í útlendingamálum verði viðvarandi á næstu missirum. Ég úttala mig ekkert um að ekki geti orðið frekari breytingar síðar. (Forseti hringir.) En svona leggjum við þetta til af hálfu ráðuneytisins með hliðsjón af því sem er að gerast í löndunum í kringum okkur. Ég ítreka að ég held að það sé skynsamlegt í þessu máli.