145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að sá hluti frumvarpsins sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni muni reyndar gagnast út um allt atvinnulífið og ekki síst í háskólasamfélaginu. Ég held að það geti skipt miklu máli við rannsókn og þróun, bæði þegar við lítum til nýsköpunarfyrirtækja, þekkingarfyrirtækja og almennt í háskólarannsóknum. Svo hygg ég reyndar líka að það geti skipt máli hér og þar, með vísan til þess sem ég heyrði fyrir nokkrum dögum að meira að segja ferðaþjónustan líti til þessara breytinga með jákvæðum augum. Ég er alveg sannfærð um að þessi þáttur muni skipta máli. Þetta er nokkuð sem ég veit að þingheimur hefur haft áhuga á lengi. Það er mikill árangur sem felst í því að geta lagt þessar tillögur fram. Frumvarpið er auðvitað marghausa, ef svo má að orði komast, og þessi þáttur frumvarpsins er einnig mikilvægur þó að hitt sé í raun og veru miklu alvarlegri og þyngri undirtónn í frumvarpinu.