145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alveg er það fjarri mér að halda því fram að nefndin hafi ekki verið mjög vel upplýst um alla löggjöf á Norðurlöndum. Ég vil að það sé alveg kýrskýrt að ég geri mér fulla grein fyrir því. En hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að meira að segja frá því í ágúst í fyrra, ágúst, september, október og nóvember í fyrra, hefur mikil deigla verið í þessari löggjöf og verður áfram.

Ég óska þess innilega að okkur takist að ljúka þessu máli saman. Ég veit að málið fer nú til meðferðar í þinginu og menn ræða það. En ég hygg hins vegar að það verði þannig næstu árin að alltaf verði einhverjar smálagfæringar gerðar á þessari löggjöf í ljósi þeirra breytinga sem verða.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, og það er það sem ég sagði í andsvari áðan, að við viljum passa upp á þetta jafnvægi á milli þess að vera með kerfi sem eru í lagi — nú notar maður þetta leiðindaorð „kerfi“, það er það sem við erum með — (Forseti hringir.) og þess að halda utan um þá hópa sem hingað koma af stríðshrjáðum svæðum og eiga rétt (Forseti hringir.) á því að vera hér, að það sé gert með sómasamlegum hætti og með manngæsku að leiðarljósi.