145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að hlúa að þeim stofnunum sem eiga að sjá um málaflokkinn og gera þeim kleift að rækja hlutverk sitt vel. En liður í því gæti einmitt verið að endurskilgreina og hugleiða betur hvort hlutverk viðkomandi stofnana kunni að vera í mótsögn innbyrðis. Það sem mér finnst að þurfi að skoða í tengslum við þetta mál er að Útlendingastofnun hefur ákveðið lögregluhlutverk, getur maður sagt, eftirlits- og lögregluhlutverk, á meðan aftur á móti hagsmunagæsla og aðstoð við flóttamenn er svolítið annar þáttur, annars eðlis, og kannski ekki alveg eðlilegt að það sé á hendi einnar og sömu stofnunarinnar að gæta að hvoru tveggja. Ég vona að stjórnarliðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ráðherrann leggist á sveif með flutningsmönnum frumvarpsins um umboðsmann flóttamanna og hugsi þetta (Forseti hringir.) með opnum huga með okkur. Ég held að þetta geti verið mjög þýðingarmikið atriði vegna þess að ég (Forseti hringir.) held að við deilum því að vilja gera þetta vel.