145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki í nokkrum vafa um vilja okkar allra til að gera það. Ég vil líka minnast á annað fyrirbæri í því sambandi sem hefur reynst gríðarlega mikilvægt í málefnum útlendinga, ekki síst þeirra sem koma hingað að sækjast eftir hæli, og það er Rauði krossinn. Rauði krossinn hefur gegnt lykilhlutverki í því að liðsinna og hjálpa þeim sem hingað hafa leitað og eru vegalausir, þannig að ég hygg að við þurfum einnig að líta til þess sem við erum þó með og halda vel utan um það. Það er líka rauður þráður í þessu frumvarpi að starf Rauða krossins er dálítið undirliggjandi. En ég átta mig alveg á úr hvaða átt þingmaðurinn kemur með þetta. Um leið og við þurfum að hafa reglufestu svo að menn viti hvar þeir standa, það þurfa allir að vita það, þurfum við að huga að hjartanu. Það er kannski það sem er erfiðast við þennan málaflokk, að þetta tvennt verður að haldast hönd í hönd í gegnum allt ferlið.