145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þó að ég hafi verið nokkuð úfinn við hæstv. ráðherra í dag og eigi hugsanlega eftir að verða það, ef sá gállinn hleypur á mig í ræðunni, vil ég samt segja að ég tel að þetta frumvarp sé eitt af merkustu málunum sem liggja fyrir þinginu. Þetta er það mál sem ég tel hvað brýnast að Alþingi taki sig saman um að koma til laga áður en við stöndum upp og fögnum sumri og búum okkur undir haustkosningar. Ég tel að mörg nýmæli séu í frumvarpinu sem horfa til heilla. Ef ég ætti að draga saman í örstuttu máli kjarnann í frumvarpinu má kannski segja að í senn uppfyllir það ýmsar efnislegar þarfir atvinnulífsins og ýtir þannig undir hagvöxt, en um leið nálgast það viðkvæman og erfiðan málaflokk, eins og umsækjendur um alþjóðlega vernd, með því sem ég leyfi mér að kalla og brýst stundum í gegnum frumvarpið sem kristaltær mannúð. Það er þannig sem við eigum að vinna.

Eins og fram hefur komið hjá þeim sem talað hafa á undan mér er frumvarpið unnið með alveg sérstökum hætti. Segja má að á mínum ferli sem spannar, eins og kom fram í dag, nákvæmlega 25 ár, fjórar ríkisstjórnir, hef ég aldrei tekið þátt í vinnu af þessu tagi. Hæstv. ríkisstjórn sýndi stjórnarandstöðunni þann trúnað að taka hana inn í verkið, fól einum úr þeirra hópi formennsku í nefndinni. Segja má að með engum hætti hafi ríkisstjórnin innan nefndarinnar reynt að beita þeim margfræga 38 manna þingmeirihluta sem hér hefur verið klifað á síðustu daga. Með öðrum orðum, ég hef aldrei tekið þátt í vinnu þar sem hefur verið jafn mikið samráð. Þess vegna er það það eina sem ég las í frumvarpinu sem varð til þess að ég hló við fót og er að finna á bls. 84 þar sem verið er að tala um samráð. Þar er það orðað svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Pólitískt samráð við gerð þessa frumvarps var ívið umfangsmeira en almennt gerist …“

Það þótti mér karlmannlega mælt. En að því slepptu gerði þetta ekkert annað en kæta mig. Þó að ég leggi áherslu á að frumvarpið verði samþykkt og sé þeirrar skoðunar — ég er að minnsta kosti reiðubúinn til að leggja mikið á mig og þola jafnvel enn frekari málamiðlanir en við höfum gert innan nefndarinnar, þá breytir það ekki hinu að ég er sáróánægður með þær breytingar sem hæstv. innanríkisráðherra hefur gert á frumvarpinu frá tillögum nefndarinnar. Þótt ég glaður mundi leggja mig þveran hér á gólfið til að tryggja það að frumvarpið næði fram að ganga þá ætla ég ekki að afsala rétti mínum til að gagnrýna hæstv. ráðherra. Og ráðherrann verður að undirgangast eftirfarandi kvöð eins og allir sem leggja fram mál (Innanrrh: Ég er ekkert að …) á þinginu. Hún verður (Gripið fram í.) að skýra orsakirnar fyrir því að breytingarnar voru gerðar og flytja fram rök. Ef henni tekst það skal ég glaður hlusta á þau. Hún hefur sannfæringarmátt og hefur að minnsta kosti einu sinni gjörsamlega snúið við skoðun minni hér í ræðustól, svo að hún fær annað tækifæri.

Sú mínúta sem hún nýtti í dag varðandi eitt tiltekið atriði var kannski allt of stuttur tími, en sá málflutningur er ekki hæstv. innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, bjóðandi. Hún á að þekkja sitt, með leyfi forseta, „brief“ betur en það að koma hingað og vísa í þróun löggjafar á Norðurlöndum, og verandi spurð nákvæmlega út í það hvaða Norðurlönd það eru sem hafa tekið þetta upp gat hún ekki svarað því. Ég ætlast samt ekki til þess að hæstv. ráðherra sé alveg inni í svona málum, en menn eiga ekki að bera svona rök á borð nema þeir séu algjörlega pottþéttir á því að það sé rétt.

Ég sagði þá og ítreka enn að ég þekki ekki, eftir mikið starf að þessum málum sem ég fékk mikinn áhuga á og hafði áður, þessa löggjöf. Til þessa þekki ég bara tillögur sem hafa komið fram t.d. í Svíþjóð og í Finnlandi, en ég þekki ekkert Norðurland sem búið er að taka þetta upp í lög. En ef hæstv. ráðherra getur sagt mér frá því og með hvaða rökum það var gert skal ég hlusta á það. En herra trúr, þó að ég sé út af fyrir sig alveg sammála hæstv. ráðherra um að við eigum að taka mið af tiltölulega farsælli á köflum löggjöf Norðurlanda í þessum efnum, þá er það af og frá að við eigum að hlaupa til eftir einhverjum tillögum sem liggja þar fyrir og eru sumar, eins og um það ákvæði sem ég nefndi sérstaklega, mjög umdeildar. Það breytir engu fyrir mig þó að hæstv. ráðherra segi að ákvæðið, breytingin sem hún leggur fram frá tillögum þingmannanefndarinnar við 6. mgr. 45. gr. þar sem ráðherra fær heimild til þess að skilyrða, m.a. að setja tímatakmörk við fjölskyldusameiningu. Þegar hún segir að hún hafi fulla trú á því að það brjóti ekki í bága við 8. gr. mannréttindasáttmálans þá leyfi ég mér að vera því algjörlega ósammála þar til hæstv. ráðherra kemur með frekari rök fyrir því.

Þessi sáttmáli, þetta tiltekna ákvæði segir það algjörlega skýrt að sérhver einstaklingur eigi að hafa skýlausan rétt til að hafa heimili og til að hafa fjölskyldu. Með öðrum orðum, til að hafa grundvöll sem er hamingja sérhvers manns. Þetta segir í 1. tölulið þessa ákvæðis sem allir þingmenn kunna örugglega utan að. Í 2. tölulið þeirrar greinar segir algjörlega skýrt á hvaða forsendum má fara frá því, þ.e. ef það varðar þjóðaröryggi, ef það varðar almannaheill, ef það varðar glæpi og spillingu eða eitthvað í þá veru. Það er ekkert sem hægt er að tengja þetta atriði við sem segir að ef fólki sem kemur niðurbrotið, hugsanlega úr átökum úti í heimi, veit ekki sitt rjúkandi ráð, hefur ekki rænu á að fara strax í að finna ættingja sína sem oft eru týndir í flóttamannabúðum eða týndir í myrkviðum styrjalda, þá eigi að meina þeim ef sex mánuðir líða að notfæra sér þann rétt sem við hin öll krefjumst, sem er að finna hamingjuna með fjölskyldu og innan heimilis. Ég gef ekkert fyrir þetta og verð að segja að miðað við þá rökfestu sem hæstv. innanríkisráðherra endranær sýnir, þá skoraði hún ekki hátt á sínum eigin mælikvarða í dag.

Eins og gefur að skilja vegna forsögu minnar að málinu og okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar sem sátum í nefndinni erum við vitaskuld sammála því uppleggi sem frá okkur fór og í öllum meginatriðum með örfáum undantekningum hefur hæstv. ráðherra haldið sig við það. Það eru sjö eða átta atriði, þar af kannski þrjú til fjögur, sem eru veigamikil sem hverfa þarf frá og í öllum atriðum til verri vegar. Ég hef þegar rakið það atriði sem fer mjög í mína sál og varðar fjölskyldusameiningu og segi algjörlega hreint út að ég mun berjast með kjafti og klóm gegn því að það verði samþykkt. Hvaða nauður rekur hæstv. ráðherra til að gera þetta? Það eru sárafáir sem að öllum líkindum munu falla undir þetta. Hvernig í ósköpunum ætla menn að verja það að staðsetja Ísland, eins og hæstv. ráðherra gerði í dag, í besta falli á gráu svæði gagnvart mannréttindasáttmálanum?

Annað mál sem truflar mig líka og ég sé ekkert nema ranglæti í er sú staðreynd að önnur breyting í tillögum ríkisstjórnarinnar, hæstv. innanríkisráðherra, frá tillögum þverpólitísku þingmannanefndarinnar felur það í sér að fylgdarlaus börn sem fá hæli eru sett í þá stöðu að þegar þau verða fullorðin, þ.e. þegar þau verða 18 ára, þá er heimilt að endurmeta stöðu þeirra. Hvað felst í því? Jú, það felst í því sviplaus þögul ógn um það að þegar þau hafa fest hér rætur, kannski um margra ára skeið, þá vofir yfir að þeim verði fleygt út úr landinu. Þetta er ekki mannúð Íslendinga. Þetta er ekki sú sanngirni sem allir flokkar vilja sýna, ekki síst börnum. Þverstæðan í málinu er sú að það langbesta í frumvarpinu er það með hvaða hætti ofið er í gegnum allt frumvarpið að staða barna er miklu sterkari en áður. Á stöku stað brýst þessi tónn og þessi viðleitni fram til að vernda barnið eins og skínandi fegurð í textanum. Hæstv. ráðherra má ekki gera sjálfri sér það, hún má ekki gera okkur það í þessu efni að breyta þar frá.

Herra forseti. Það eru fleiri atriði sem þegar hafa verið nefnd sem ég gæti fett fingur út í, en ég ætla ekki að hafa þennan bölmóð lengri. Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið sé mjög gott og ég gæti talið upp feikilega mörg atriði sem valda því að ég tel að brýnt sé að við samþykkjum það. Fyrir utan hin efnislegu gæði sem felast í þessum ágætu tillögum þá er það líka staðreynd að ég held að það skipti óskaplega miklu máli fyrir okkur sem löggjafarsamkomu og fyrir samfélagið sem við erum túlkendur fyrir, að pólitísk samstaða náðist um málaflokk sem í öllum öðrum grannlöndum eru heiftarlegar deilur um. Ég segi það alveg hreinskilnislega við hæstv. ráðherra að ákafi minn í að samþykkja þetta felst í því að ég óttast það að ef sú samstaða brestur, í þeim óstöðugleika sem ríkir í samfélaginu, gæti það leitt til þess eins og í ýmsum öðrum samfélögum að málið mundi sundurslíta samfélagið í mjög fordómafullri og heiftarlegri umræðu, eins og við sjáum jafnvel hafa gerst annars staðar á hinum friðsælu Norðurlöndum. Samstaðan skiptir svo miklu máli. Þess vegna segi ég fyrir mína parta að ég vil ganga langt til að koma málinu í gegn. En þá finnst mér líka að hæstv. ráðherra megi ekki setja mig í þá stöðu að ég þurfi að samþykkja ákvæði sem beinlínis særa réttlætiskennd mína og valda þeirri upplifun hjá mér að ég sé í besta falli á gráu svæði gagnvart sjálfum mannréttindasáttmálanum.

Herra forseti. Ég nefndi það sérstaklega áðan að það sem er langmerkast í frumvarpinu er akkúrat sú stóraukna vernd sem börnum og ekki síst fylgdarlausum börnum er veitt og ég tel að það skipti verulegu máli í tengslum við það með hvaða hætti lagaramminn er skekktur og regluverkið sett í kringum móttökumiðstöðina og ekki síst hvernig barnaverndaryfirvöld fá aðkomu að málinu í gegnum móttökumiðstöðina strax á fyrstu skrefum. Það er nefnilega þannig fyrir okkur sem höfum verið lengi á vellinum og oft komið að málum af þessu tagi að við vitum að það liggur við að nánast í flestum tilvikum sem varða börn í þessari stöðu þá skapast vandræði sem í sumum tilvikum eru þannig að Íslendingar hefðu átt að skammast sín að sú staða kom upp. Alltaf má rekja það til þess að barnaverndaryfirvaldið hefur mjög óljósa stöðu í gildandi lagaramma varðandi aðkomu sína að málefnum sem tengjast flóttabörnum. Í frumvarpinu er það hins vegar nánast í gadda slegið að menn verða að hlusta á barnaverndaryfirvaldið. Lögð er skylda á herðar Útlendingastofnunar og hún verður að leita ráða hjá þeim þegar upp koma viðkvæm tilvik. Ég gagnálykta því að Útlendingastofnun komist ekki hjá því að taka tillit til þeirra ábendinga sem þar koma fram. Mér finnst það til dæmis mikilvægt að börnum í sérstakri stöðu er skipaður gæslumaður fyrir hagsmunum þeirra, sem ekki á að ala önn fyrir barninu. Hann á að sjá til þess að barn sem er ekki komið til þess þroska eða er í þeirri stöðu að það kann ekki að leita réttar síns í útlendu landi, það er varið. Þetta skiptir alveg svakalega miklu máli, að minnsta kosti fyrir mig.

Það er vegna þessara þátta og þó ekki væri nema bara vegna þessa þráðar sem vefur sig í gegnum frumvarpið sem væri í fínu lagi að samþykkja það. Margt fleira kemur fram í frumvarpinu. En að öllu leyti er málaflokkurinn miklu skýrari og það skiptir máli í svona vandasömum málaflokki að menn geti metið sína stöðu. Ég tek dæmi. Eitt af því sem er erfitt í lagarammanum er að vitaskuld eru mörg íþyngjandi ákvæði gagnvart þeim sem fá eða sækja um alþjóðlega vernd. Það er erfitt að finna þau. Menn þurfa helst að hafa sérfróða aðila til að geta leitað þau uppi. Þetta er sett allt í einn kafla. Þetta skiptir verulega miklu máli.

Það skiptir líka máli fyrir mig að í frumvarpinu kemur fram að stjórnvaldið hefur leiðbeinandi skyldu. Það hjálpar verulega. Hæstv. ráðherra tók sjálf á þeim jákvæða og göfuga þætti í frumvarpinu sem rekur sig aftur til fyrri ráðherra, þar á meðal hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að taka á sérstakt tillit til þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Þar skiptir móttökumiðstöðin miklu máli til að geta greint það, því að hæfni þarf til að greina það á stundum hvort sá sem sækir um alþjóðlega vernd hefur verið fórnarlamb mansals, er það kannski, eða hefur sætt alvarlegum pyndingum. Það skiptir máli að lagaramminn búi til sérstök réttindi fyrir þá sem í þeirri stöðu eru.

Að lokum vil ég segja að mikilvægt er að menn nái samstöðu um þetta. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi brugðist vel við í haust, eins og ég sagði þá, þegar hún tók á þeim vanda og aflaði 2 milljarða til að stoppa upp í göt vanrækslusynda fortíðarinnar og kosta nýmæli eins og móttökumiðstöðina. (Forseti hringir.) Ég vil líka segja áður en ég fer héðan, herra forseti, að erfitt er (Forseti hringir.) að stýra Útlendingastofnun og sú stofnun hefur oft sætt ámæli. (Forseti hringir.) En ég vil segja gagnvart þessum erfiða málaflokki, mér finnst (Forseti hringir.) að stjórnendur hennar og stofnunin hafi þrátt fyrir allt staðið sig vel undir miklu álagi, mikilli ágjöf og það hefðu ekki allir getað siglt í gegn eins og þau gerðu.