145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[19:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns í 1. umr. um frumvarp til laga um útlendinga segja að ég ætla alls ekki að draga dul á að ég er ein þeirra sem vilja að mun fleiri fái hæli á Íslandi en nú er, hvort sem er með stöðu flóttamanna eða þeim sé veitt hæli af mannúðarástæðum. Ég vil óska hæstv. innanríkisráðherra til hamingju með að hafa lagt frumvarpið fram í dag og þakka fyrir framsöguræðu hennar og ég þakka þeim hv. þingmönnum sem setið hafa í þingmannanefnd sem hér hefur títt verið nefnd sem hefur haft það hlutverk að fara í gegnum og leggja drög að frumvarpi um útlendingalög. Um leið og ég vil þakka þeim öllum fyrir þessa vinnu þá verð ég að segja að kannski einmitt vegna þess að það er draumur minn að hér fái fleiri hæli á Íslandi, þá varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum með frumvarpið, ef til vill vegna þess að ég gerði mér óraunhæfar vonir um hvað kæmi út úr vinnunni.

En áður en ég fer nánar yfir þau atriði sem mig langar að nefna við 1. umr. þá vil ég samt segja að ég tek heils hugar undir það sem hér hefur verið sagt og þessi endurskoðun skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli. Ég er sammála því til að mynda að hér sé búið betur að réttindum barna, en vil um leið segja að ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem sagði að hann vonaði sérstaklega að ákvæði um endurmat á stöðu fylgdarlausra barna við 18 ára aldur yrði skoðað sérstaklega í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd og jafnvel breytt.

Þá vil ég líka segja það, sem er auðvitað jákvætt, að lögin eru aðgengileg og þannig uppbyggð að tiltölulega gott er að sjá hvaða reglur það eru sem gilda á Íslandi. Það skiptir máli, ekki síst held ég þegar að minnsta kosti hluti af því fólki sem mun hafa áhuga á þessum lögum og mun vilja kynna sér þau til að vita hver réttindi þess eru, er fólk sem er kannski ekki vel læst á íslenska tungu og hvað þá íslenskt samfélag. Þá skiptir aðgengileiki laganna sjálfra sérstaklega máli, til viðbótar við það sem segir í lögunum.

Eins og ég sagði í upphafi þá varð ég fyrir svolitlum vonbrigðum því mér finnst enn þá að Ísland verði óþarflega lokað eða allt of lokað og hér verði of erfitt að fá hæli samkvæmt þessu lagafrumvarpi. Það sést kannski einna best í 36. gr. frumvarpsins þar sem er fjallað um flóttamenn og vernd gegn ofsóknum og skilyrðin sem þarf að uppfylla til þess að umsókn um alþjóðlega vernd sé tekin til efnismeðferðar. Hér finnst mér enn þá vera of auðvelt að vísa fólki frá vegna þess að við erum nálega aldrei, ég held hreinlega aldrei, fyrsti viðkomustaður fólks. Það kemur enginn hingað beint frá stríðshrjáðu landi og þá er alltaf hægt að vísa fólki til einhvers annars lands sem það kom hingað í gegnum. Ég er hrædd um að þetta ákvæði verði notað um of.

Svo vil ég líka nefna 32. gr. þar sem fjallað er um refsileysi vegna ólöglegrar komu eða falsaðra eða stolinna skilríkja. Þar sé ég ekki betur en að hægt sé að refsa flóttamönnum sem koma hingað með fölsuð skilríki á þeim forsendum að þeir hefðu átt að gefa sig fram í ríkinu sem þeir komu fyrst til eða komu í gegnum, enda komi enginn hingað beint frá hættusvæði. Ég hef á tilfinningunni að hér sé ekki verið að breyta neinu frá núgildandi lögum. En þetta er eitt þeirra atriða sem oft hefur verið nefnt að mjög brýnt sé að taka á. Þetta er atriði sem mér finnst þurfa að skoða sérstaklega.

Svo er eitt atriði sem kann að þurfa að skoða sérstaklega. Þetta er auðvitað gríðarlega stórt og víðtækt frumvarp og rosalega margar greinar sem mikilvægt er að rýna vel, en mig langar að nefna 116. gr. þar sem er fjallað um refsiákvæði. Þar eru talin upp atriði sem geta varðað refsingu. Í b-lið kemur fram, með leyfi forseta, að það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður „af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hefur milligöngu um vinnu eða húsnæði fyrir útlending […]“.

Svo er haldið áfram með greininguna. Mér finnst mikilvægt að velta því upp hvað þetta þýði. Þýðir þetta það að ef Íslendingur tekur útlending eða einhvern sem er með mál til meðferðar í kerfinu inn á heimili sitt og býður honum að búa þar, sé hægt að refsa Íslendingnum fyrir það? Ég veit að í Danmörku til að mynda hefur það verið praktíserað þannig að flóttamönnum hefur verið gert að búa í sérstökum móttökumiðstöðvum. Ég vil reyndar nefna það við þetta tækifæri að ég er mjög hlynnt því að hér verði komið upp móttökumiðstöð. En það sem ég er að velta fyrir mér er hvernig eigi að skilja þetta ákvæði í rauninni í tengslum við það. Ég teldi það mjög slæmt ef það yrði með lögum þannig um hnútana búið að það væri hægt að refsa fólki fyrir það að hýsa flóttafólk. Ég vona að ég sé að misskilja eitthvað hérna, en þetta er hins vegar skilningur sem mér finnst vera hægt að lesa út úr ákvæðinu. Mér finnst þess vegna mikilvægt að vekja athygli á þessu og beini því meðal annars til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að hún skoði það sérstaklega hvort þetta þýði ekki örugglega eitthvað annað en að hægt sé að refsa fólki fyrir að taka einstakling eða fjölskyldu sem er með mál sitt í gangi í kerfinu inn á heimili sitt.

Frumvarpið er 125 lagagreinar og þær taka á gríðarlega mörgum og ólíkum viðfangsefnum, þannig að það er margt sem þarf að skoða. Þetta er bara 1. umr. og við þingmenn höfum reynt að gera okkar besta til að fara yfir frumvarpið, en auðvitað höfum við þurft að lesa það frekar hratt því að það eru að ég held ekki nema um tveir sólarhringar síðan málinu var dreift. Það eru ýmsar spurningar sem vakna um það hvernig eigi að túlka lagabókstafinn einmitt vegna þess að það hefur kannski ekki gefist tími til að kryfja allt, en þess vegna er mikilvægt að við veltum upp þeim spurningum sem vakna og beinum því til nefndarinnar að skoða sérstaklega meðfram annarri venjulegri meðferð sem frumvörp fá í nefnd.

Mig langar að nefna atriði sem lýtur að öðru en því sem ég hef hingað til talað um, sem eru flóttamenn og þeir sem koma hingað og sækja um alþjóðlega vernd, af því að hér er líka verið að fjalla um aðra útlendinga. Hér er meðal annars kafli um dvalarleyfi. Það voru tvær greinar vegna dvalarleyfisveitingar sem ég staldraði við, en það eru 75. gr. og 76. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um dvalarleyfi fyrir annars vegar hugsanlegt fórnarlamb mansals og hins vegar dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals. Þar kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt þessum ákvæðum geti ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Ég hreinlega spyr: Af hverju ekki? Ef fólk fær dvalarleyfi vegna þess að grunur leikur á að einstaklingurinn sé fórnarlamb mansals eða það er hreinlega búið að úrskurða það að viðkomandi sé fórnarlamb mansals, það fær dvalarleyfi á þeim forsendum, af hverju ætti ekki að vera hægt að nota það sem grundvöll, að hægt sé að endurnýja slíkt dvalarleyfi og fólk fái ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli þess? Ég sé alla vega ekki neina augljósa skýringu á því af hverju það ætti ekki að vera svo. Ég hefði einmitt haldið að við ættum frekar að leggja okkur fram um að búa sem best að þessu fólki sem er auðvitað í gríðarlega viðkvæmri og erfiðri stöðu og að mínu mati væri ótímabundið dvalarleyfi liður í því.

En af því að tíminn er að hlaupa frá mér þá vil ég nefna að lokum að ég varð fyrir vonbrigðum með það, vegna þess að hér er verið að fara inn í lögin um atvinnuréttindi útlendinga, að hér er ekki verið að breyta því almennt að atvinnuleyfið liggi hjá einstaklingnum en ekki hjá atvinnurekanda. Það er þannig núna að það er atvinnuveitandinn sem hefur dvalarleyfið. Mér finnst að þetta sé atriði sem við verðum núna að velta alvarlega fyrir okkur í ljósi þeirra frétta sem við höfum heyrt á undanförnum dögum um slæman aðbúnað verkafólks. Auðvitað get ég ekki vitað hvort þetta verkafólk nákvæmlega (Forseti hringir.) starfar hér með atvinnuleyfi sem fellur undir (Forseti hringir.) þetta, en það er hins vegar alveg ljóst að á meðan það er atvinnurekandinn sem hefur (Forseti hringir.) atvinnuleyfið en ekki einstaklingurinn sjálfur er fólk í vistarböndum við vinnuveitanda sinn. Það (Forseti hringir.) setur fólk í gríðarlega viðkvæma stöðu. Fréttirnar þessa dagana eru með þeim hætti að þetta verðum við að skoða sérstaklega. (Forseti hringir.) En tími minn er víst búinn.