145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aflandseyjahneykslið hefur ekki bara orðið til þess að hæstv. forsætisráðherra sagði af sér heldur er nú farið að leiða til þess að starfsmaður flokks, framkvæmdastjórar lífeyrissjóða og ýmsir miklu lægra settir menn en fjármálaráðherra hafa ákveðið að stíga til hliðar til þess að traust megi hvíla á þeim störfum og stofnunum sem þeir veita forstöðu.

En áfram situr fjármálaráðherra hér og neitar að horfast í augu við þau áhrif sem aflandseyjahneykslið hefur haft fyrir stöðu einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Hann neitar að rjúfa þetta þing og boða til kosninga.

Nú spyr maður: Á líka að ganga á bak yfirlýsingum fjármálaráðherra um að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing? Á ekki að kjósa fyrr en einhvern tíma í vetur, seint í október?

Á að efna til nýs þings í haust og ganga þvert á yfirlýsingar þær sem Bjarni Benediktsson gaf sjálfur út um leið og hann hafði stofnað þá nýju ríkisstjórn sem nú situr?

Nei, virðulegur forseti, það gengur ekki. Sú málaskrá sem menn hlæja að, (Forseti hringir.) frá Vestfjörðum og til Suðausturlands, um 75 mál sem enn hafa ekki verið skrifuð, verður auðvitað aðeins til þess að þvælast fyrir öllu þinghaldi.(Forseti hringir.)

Það er kominn tími (Forseti hringir.) til að hæstv. fjármálaráðherra horfist í augu við það (Forseti hringir.) að hann nýtur ekki trausts til að aflétta höftum eða selja þær ríkiseignir sem hér eru.