145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ákveðið áhyggjuefni að stjórnarandstaðan geti ekki séð fyrir sér að þingið haldi áfram að vinna að þeim fjölmörgu málum sem við höfum verið að vinna með í nefndum og ríkisstjórnin hefur komið fram með allt frá síðasta hausti. Hér er á stundum sagt að þetta sé verklaus ríkisstjórn vegna þess að málin séu allt of fá, núna er mantran orðin að þetta séu allt of mörg mál, að við getum ekki afgreitt svona mörg mál.

Staðreyndin er sú að fyrir þinginu liggur heilbrigður fjöldi mála sem er langt kominn, málalisti sem ræddur hefur verið við stjórnarandstöðuna. Hann er mjög eðlilegur, það er ekkert óvanalegt við hann. Það sem við skulum gera er að nýta þetta þing, þá daga sem eru fram undan, til að ljúka þeim málum. Við höfum á fundum með forustu stjórnarandstöðunnar margítrekað hvernig við viljum vinna að framgangi þessara mála, svo göngum við til fundar við kjósendur, (Forseti hringir.) til kosninga, með haustinu. Þetta er planið og það þarf ekki að koma hér og ræða það undir liðnum um fundarstjórn forseta aftur og aftur.