145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Vilji menn ræða undir liðnum um fundarstjórn forseta traust á fjármálaráðherranum finnst mér menn vera komnir út fyrir dagskrárliðinn. Hér var rætt vantraust á ríkisstjórnina og það var fellt. Ríkisstjórnin ákvað að eigin frumkvæði að ljúka þessu þingi, ljúka stórum og mikilvægum málum, og hefur boðað að kosið verði í haust. Fyrir þessu er mjög ríkur meiri hluti í þinginu og það er ekki nema lýðræðislegt að fylgja því. Ef einstaka þingmenn vilja koma með vantrauststillögu á ráðherra skulu þeir bara gera það en það á ekki að vera að eyða góðum tíma þingsins í svona umræðu undir öðrum dagskrárliðum þingsins.

Varðandi það sem við viljum gera í málefnum aflandsfélaga og skattaskjóla var tekin við mig sérstök umræða um þau í þinginu fyrir stuttu. Ég hef gert grein fyrir því hvað stjórnvöld eru að gera og hyggjast gera í þeim málum. Við skulum líka ræða það á réttum stað í þinginu. Það að koma upp undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta og láta sem svo að stjórnvöld (Forseti hringir.) ætli sér ekkert með þessi mál, geri lítið úr þeim, hafi ekki fyrr boðað til kosninga o.s.frv. — það stendur ekki steinn yfir steini.

Talandi um traust, mættu ekki sumir þeirra sem stigu hér upp líta örlítið í eigin barm og spyrja sig: (Forseti hringir.) Hvernig er traustið til viðkomandi stjórnmálaflokka?

Staðreyndin er sú að stjórnarflokkarnir hlakka til funda með kjósendum (Gripið fram í.) til að leggja fyrir kjósendur í þessu landi (Forseti hringir.) þann gríðarlega árangur sem áherslur ríkisstjórnarinnar hafa skilað landsmönnum. [Háreysti í þingsal.]