145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Planið var nefnilega að kaupa tíma, að fresta og fá tíma til þess að grípa til aðgerða sem mögulega mundu hífa upp fylgið. (Gripið fram í.) Það sem við okkur blasir er afrekaskrá ríkisstjórnar sem ætlaði að halda öllu að sér í þrjú ár og koma síðan með feit kosningafjárlög á fjórða árinu. Það er það sem við okkur blasir þegar við förum yfir sviðið. Við erum að fjalla um samgönguáætlun núna og tala við sveitarstjórnarfólk sem er í sjokki. Það er í uppnámi yfir ástandinu í samgöngumálum þjóðarinnar.

Sömu sögu er að segja í heilbrigðiskerfinu. Þjóðin öll er í uppnámi yfir því. Menntakerfið, alls staðar. En það átti að gefa í fjórða árið og kaupa sér vinsældir með fjármunum almennings. Það sem nú er að gerast er að Sjálfstæðisflokkurinn er að kaupa sér tíma til þess að reyna að hífa upp fylgi Framsóknarflokksins vegna þess að enginn annar ætlar (Gripið fram í.) með þeim í stjórn, það ætlar enginn annar með þeim í stjórn. Hverjum mundi detta það í hug þegar afrekaskráin er eins og hún er? (Forseti hringir.) Þegar framtíðarsýnin er eins og hún er? Þegar virðingin fyrir umræðunni og fyrir (Forseti hringir.) almenningi í þessu landi er eins og raun ber vitni? (Forseti hringir.) Hún er fyrir neðan allar hellur, hæstv. fjármálaráðherra. (Fjmrh.: Ný umræðuhefð Bjartrar framtíðar.) Og þú ert gæslumaður hennar, Bjarni.