145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér var þingflokksformannafundur í gær þar sem þingflokksformenn allra flokka á Alþingi samþykktu dagskrá þessa dags og dagskrá morgundagsins. Síðan kemur hópur úr þessum ágætu flokkum, sumum hverjum, og krefst þess að frá því verði fallið og eitthvað annað gert.

Virðulegur forseti. Ég er 2. þm. Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Ég er 3. þm. þess kjördæmis. Að baki mér sem þingmanni stendur stór hluti þjóðarinnar. Þeir kjósendur sem hafa kosið mig til ábyrgðarstarfa fyrir hönd þingflokksins, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og sem þingmann í mínu kjördæmi, eru ekki að kalla á kosningar. Þegar stjórnarandstaðan stendur hér í tíma og ótíma og talar um að þjóðin sem heild eins og eitthvert ákveðið mengi sem styður hana standi að því (Forseti hringir.) að kalla eftir kosningum leyfi ég mér að segja að minni hlutinn talar ekki fyrir mína hönd sem var kosin þingmaður í Suðvesturkjördæmi. Þeir kjósendur sem þar eru standa enn að baki mér sem þingmanni og mínum flokki. (LRM: Það kemur í ljós í kosningum.)