145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vísar í fund þingflokksformanna í gær þar sem, samkvæmt hennar orðum, samkomulag var um dagskrá þingfundar í dag og á morgun vil ég segja að þar var sannarlega dagskrá dagsins í dag og á morgun rædd, eins og eðlilegt er, en það er auðvitað forseti sem leggur fram dagskrá þingsins og hann hafði heyrt sjónarmið okkar allra sem ættu við í þeirri ákvörðun sem hann stæði frammi fyrir í því að leggja dagskrá þingsins fram. Þar var það ekki rætt að fella niður eða fella út dagskrárliðinn um fundarstjórn forseta.

Dagskrárliðurinn um fundarstjórn forseta verður notaður þegar þarf og það er mjög mikil ástæða til þess að nota dagskrárliðinn fundarstjórn forseta núna. (Forseti hringir.) Það er skiljanlegt að hæstv. fjármálaráðherra kveinki sér undan því að liðurinn sé notaður til að benda á hið augljósa, að honum er ekki sætt. Þannig er það.