145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við höfum síðustu missirin upplifað svona stundir þar sem í upphafi þingfundar er tekinn liður um fundarstjórn forseta sem í þingsköpum var ætlaður til að fjalla um dagskrá og eitthvað sem færi úrskeiðis við fundarstjórn forseta og hann hefur breyst í að verða umræðuliður til að þingmenn minni hlutans geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er auðvitað þeirra val.

Ég held hins vegar að eitt af því sem sé að í áliti almennings og kjósenda á Alþingi og okkur stjórnmálamönnum sé akkúrat slík notkun á fundarsköpum Alþingis í stað þess að einbeita okkur að þeim verkefnum sem við erum með fyrir framan okkur, allir þingmenn í ólíkum nefndum. Það er svo sannarlega unnið að aflandsmálum sem vissulega skekja þjóðina og valda okkur áhyggjum um það hvernig við komumst frá þeim. (Gripið fram í.) Hér er mjög sterkur meiri hluti ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: Sterkur meiri hluti …) sem minni hlutinn hefur skorað á hólm (Forseti hringir.) og tapað. Það er fullkomlega eðlilegt ástand að við ljúkum þeim verkum. Ákall almennings og kjósenda í landinu er að við vinnum vinnuna okkar.