145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[11:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er þetta með þjóðina, hvort við alþingismenn megum vísa til þess að þjóðin vilji þetta og hver sé þjóðarviljinn. Þjóðarvilji er oft mældur í skoðanakönnunum. Þjóðarviljinn núna stendur til þess að kosið verði. (Gripið fram í: Það er rangt.) (Gripið fram í.) Það er ekki stuðningur. Ríkisstjórnin nýtur ekki stuðnings meiri hluta þjóðarinnar. Hún getur talað um sinn digra meiri hluta á Alþingi endalaust og falið sig á bak við hann, 38 þingmenn, en meiri hluti þjóðarinnar styður hana ekki. Menn komu ekki á Austurvöll til að ákalla þessa ríkisstjórn að koma sem flestum málum í gegn og sitja eins og henni væri sætt. Menn voru að kalla á að þessi ríkisstjórn færi frá og kosið yrði og umboðið endurnýjað.

Mér finnst vera með ólíkindum (Forseti hringir.) ef hvorki þingmenn né hæstv. ráðherrar hlusta á slíkar raddir. (Forseti hringir.) Vandamálið um traust gagnvart þjóðinni er ekki fundarsköp Alþingis eða (Forseti hringir.) þingsköpin. Það er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fyrst og fremst.