145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

[11:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarflokkarnir felldu tillögu um að gengið yrði strax til kosninga en viðurkenna samt þá pólitísku upplausn að flýta þurfi kosningum og kjósa í haust. Það er augljóst að ríkisstjórnarflokkarnir gera sér fulla grein fyrir að krísa er í íslenskum stjórnmálum. Ég velti því fyrir mér: Á þessum lista er fullt af ágætum málum, mörg mál mundu jafnvel njóta þverpólitísks stuðnings. Er þörf á að sitjandi ríkisstjórn flytji þessi mál? Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra minnist á afnám hafta. Er það ekki verkefni sem hefur verið hlutverk margra ríkisstjórna frá því að neyðarlögin voru sett í breiðri sátt árið 2008 undir að miklu leyti forsæti Seðlabankans? Eru ekki húsnæðismálin, sem oft er talað um, aðallega bitbein á milli stjórnarflokkanna frekar en annarra flokka á Alþingi? (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér þegar ég skoða dagskrá Alþingis í dag, vegna þess að nú er að verða mánuður liðinn frá því að ríkisstjórnin tók við — brottfall laga um lífeyrissjóð bænda, (Forseti hringir.) uppbyggingarsjóður EES, EES-reglur um heilbrigði dýra og plantna, (Forseti hringir.) eru þetta hin mikilvægu mál sem kalla á að við séum hér í þinginu?