145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er ódýrt útspil, að taka einhver mál sem hafa verið í vinnslu, gera lítið úr öllum embættismönnum sem hafa komið að þeim, gera lítið úr starfi nefnda sem hafa kallað til sín umsóknir o.s.frv. Þetta eru mál sem við ætlum að klára, já. Þetta eru ekki okkar mikilvægustu mál. Ég ætla ekki að halda því fram að málið sem menn tína upp af tæplega 80 mála lista — er þetta málið? Þetta er auðvitað ekki boðlegur málflutningur. Þetta er ekki boðleg framsetning á stöðu þingsins. Þetta er ekki boðlegt gagnvart þinginu, starfsmönnum þingsins, stjórnmálalífinu í landinu, að nefna einhver svona mál og segja: Sjáið hvað þingið er að vinna að tilgangslausum málum. Það er auðvitað ekki boðleg framsetning.

Þegar menn koma hins vegar að afnámi hafta þá ætla ég að segja eitt: Hver einasti dagur sem tapast í því að afnema höftin á Íslandi er til skaða fyrir Ísland og íslenskt efnahagslíf, hver einasti dagur. Með því að hafa rokið núna til kosninga hefðum við valdið tjóni í því, vegna þess að innan fárra daga kemur fram frumvarp. Innan fárra vikna munum við halda þetta útboð. Þá munum við hefja haftaafnámsferlið degi fyrr (Forseti hringir.) en ella hefði orðið, tveimur dögum fyrr en ella hefði orðið er þess virði. Það er þess virði. Það er mín skoðun. Svo geta menn komið með aðra skoðun og gert lítið úr því og gert sig breiða og sagt: (Forseti hringir.) Ja, við hefðum nú gert þetta allt svona. Það er auðvelt að segja það eftir á.