145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

afhending gagna viðskiptabanka til ríkisskattstjóra.

[11:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Norski bankinn DNB, sem norska ríkið á drjúgan hlut í, hefur að eigin frumkvæði safnað öllum upplýsingum í bankanum um viðskipti viðskiptavina við aflandseyjar og afhent norskum skattyfirvöldum.

Ég spyr þess vegna Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, sem jafnframt fer með ábyrgðina á eignarhlut ríkisins í viðskiptabönkunum, hvort hann muni beita sér fyrir því að allar upplýsingar um samskipti og viðskipti viðskiptavinanna í íslensku bönkunum við aflandseyjar verði afhentar ríkisskattstjóra, óháð því hvort menn liggja undir grun um refsivert athæfi eða ekki. Öll tölvupóstssamskipti, öll símtöl, öll bréf, öll samskipti viðskiptabankanna við útibú sín og síðar banka í Lúxemborg og við aflandseyjafélög viðskiptavina sinna.

Mun fjármálaráðherra hafa frumkvæði að því að allar þær upplýsingar, sem sannarlega eru til í íslensku bönkunum, alveg eins og þær voru til á lögfræðistofunni í Panama, verði sóttar inn í bankana og keyrðar yfir til ríkisskattstjóra?