145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar ekki er búið að negla niður kjördag, bara búið að segja við okkur að kosningar verði einhvern tíma í haust, er eðlilegt að menn fyllist tortryggni þegar kallað er af þingbekkjunum að ekki verði kosið fyrr en næsta vor. (Gripið fram í.) Það ýtir undir vantraust. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hvaða hugsun býr að baki að koma ekki bara fram með dagsetninguna? Það sem býr þar að baki er að menn vilja geta veifað því fyrir framan okkur eins og dulu að klára þurfi hér einhver ákveðin mál, og hafa völdin sín megin. Menn eru nefnilega svo hallærislegir og litlir í þessum sal að þeir þurfa að hafa valdið sín megin. Um það snýst þetta. (ÁsF: Þú þekkir þetta.) Virðulegi forseti. Ég hef aldrei veifað kjördegi framan í nokkurn mann. Það hef ég aldrei gert, hv. þm. Ásmundur Friðriksson. Það gera hins vegar þingmenn stjórnarmegin í þessum sal. Þetta er ekki boðlegt. Þessu þarf að breyta og þið þurfið að segja okkur hvenær á að kjósa.