145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Úr því að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þykir ámælisvert að ég skuli taka alvarlega frammíköll hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, fulltrúa í forsætisnefnd Alþingis, er sjálfsagt að biðjast velvirðingar á því. En um virðinguna og starfið hér vil ég segja að ég sagði fyrr á fundinum að ekki væri búið að skrifa ýmis þau mál sem eru á málalista ríkisstjórnarinnar. Allt það starf sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um áðan hefur einfaldlega ekki verið unnið.

Til marks um virðingu ríkisstjórnarinnar boðar hún heildarendurskoðun á almannatryggingum, framfærslukerfi tugþúsunda Íslendinga. Í síðustu viku var fyrsti fundur um samningu lagafrumvarps um þetta efni boðaður í velferðarráðuneytinu — fyrsti fundur um að fara að skoða hvernig ætti að skrifa lög um heildarendurskoðun á framfærslu tugþúsunda Íslendinga. Þetta eru vinnubrögðin. Þau eru auðvitað engin. Þau eru leiktjöld til að reyna að fresta því óumflýjanlega, (Forseti hringir.) að þurfa að mæta dómi kjósenda.