145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil harðlega mótmæla því að ég sé að misnota þennan dagskrárlið um fundarstjórn forseta þegar ég geng eftir því að forustumenn þessarar ríkisstjórnar standi við þau loforð sem þeir gefa og kalla eftir því að staðið sé við þau. Það er ekki að misnota þennan dagskrárlið. Hvenær á annars að koma því á framfæri?

Krafa fólksins í þessu landi er sú að það verði kosið strax. Það er líka mín krafa, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) að kosið verði strax. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er hægt að stoppa menn sem gjamma fram í þegar ég er að tala? Er það ekki að misnota aðstöðu sína í þingsalnum? (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞórE): Forseti biður um ró í þingsalinn og biður þingmenn um að gefa …)

Virðulegi forseti. Ég kalla enn eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins standi við orð sín og geri það sem hann hlýtur að verða að gera til að standa við þau, sem er að segja okkur að hér verði kosið ekki síðar en fyrstu vikuna í september vegna þess að fella eigi niður eitt þing og það hefjist annan þriðjudag í september. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)