145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom hérna upp og upplýsti okkur um það að að hans mati væri ekki mark takandi á hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Það vill þannig til að við hin hlustum þegar þingmenn kalla fram í að mögulega verði ekki kosið fyrr en næsta vor. Hvers vegna gerum við það? Vegna þess að menn hafa ákveðið að svara ekki spurningunni um kjördag með neinni dagsetningu. Hvers vegna gera menn það? Gera menn það ekki vegna þess að þeir vilja sýna hverjir hafa völdin? Ef það kallast ekki að misnota vald sitt veit ég ekki hvað felst í því. Hér fara menn illa með vald.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerir sjálfan sig að ómerkingi þegar hann kemur og dregur í land með það að hafa sjálfur fullyrt og sagt (Forseti hringir.) að eitt löggjafarþing yrði klippt af þessu kjörtímabili, því þá yrði kosið í september. Á núna að draga í land með það? Ætla þingmenn hér inni að gera hann að ómerkingi?