145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

opinber innkaup.

665. mál
[12:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um opinber innkaup sem fela í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um sama efni. Helstu markmið frumvarpsins eru að tryggja gagnsæi, jafnt aðgengi og auka samkeppni um opinbera samninga jafnt innan lands sem og á Evrópska efnahagssvæðinu. Með breytingunum eru stigin skref í þá átt að nútímavæða opinber innkaup þar sem samskipti í innkaupaferli skulu að meginstefnu fara fram með rafrænum aðferðum fyrir lok ársins 2018. Þá er innkaupaferlið einfaldað og dregið verulega úr skriffinnsku fyrir fyrirtæki við skil á tilboðum. Einnig eru auknir möguleikar fyrir opinbera aðila að nota sveigjanleg innkaupaferli í flóknari innkaupum.

Mikilvæg skref eru stigin í þá átt að auka möguleika opinberra aðila innan lands að standa saman að innkaupum til ná fram betri árangri og hagkvæmni við innkaup hins opinbera.

Ég kom á fót sem ráðherra tímabundinni verkefnisstjórn sem hefur haft það hlutverk að beita sér fyrir sameiginlegum innkaupum og ná fram aukinni skilvirkni í innkaupamálum ríkisins þvert á ráðuneyti og stofnanir. Nýleg útboð sem verkefnisstjórnin hefur verið í fararbroddi fyrir hafa skilað töluverðum árangri og má þar nefna innkaup á tölvum sem lækkuðu um ríflega fjórðung frá fyrra verði. Ljóst er að hér eru gríðarlegir möguleikar til staðar til að bæta nýtingu á almannafé umfram það sem verið hefur með samræmdum innkaupum.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að kveða á um að stofnunum á vegum ríkisins sé skylt að standa sameiginlega að tilteknum innkaupum. Með þessari heimild verður hægt að stýra innkaupum stofnana til betri vegar og ná fram aukinni stærðarhagkvæmni í innkaupum hins opinbera og vinna áfram á þeirri leið sem hefur verið mörkuð með sameiginlegum innkaupum.

Í frumvarpinu er jafnframt að finna heimild til að bjóða út tiltekin innkaup í nánara samstarfi með erlendum aðilum á EES-svæðinu. Ástæða getur verið fyrir opinbera aðila til að nýta sér slíka heimild þegar um ræða mjög sérhæfð innkaup sem aðeins hið opinbera kaupir að öllu jöfnu og lítil samkeppni ríkir um, t.d. vegna innkaupa á lyfjum eða sérhæfðum búnaði fyrir lögreglu.

Þörf er á að breyta núgildandi ákvæði laganna sem gerir ráð fyrir staðfestingu Samkeppniseftirlitsins á samkeppnismati innkaupastofnunar. Engu að síður er sett skilyrði um að kaupandi, eða eftir atvikum Ríkiskaup, upplýsi Samkeppniseftirlitið um fyrirhuguð innkaup og veiti rökstuðning fyrir beitingu heimildar samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins og eftir atvikum afhendi afrit af samningi í kjölfar útboðs. Með þessum hætti getur Samkeppniseftirlitið haft yfirsýn yfir innkaup á grundvelli ákvæðisins. Jafnframt er gerð krafa um að Samkeppniseftirlitið sé upplýst um ástæður fyrir því að bjóða þurfi innkaup út í öðru ríki í stað þess að gera það með almennum hætti á innlendum markaði.

Herra forseti. Áhersla er lögð á að það í frumvarpinu að reglur um opinber innkaup mæli fyrir um heildstætt regluverk á þessu sviði sem nær bæði yfir innkaup ríkis og sveitarfélaga. Innkaupareglur sem gilda um ríki og sveitarfélög eru því samræmdar með þeim hætti að innlendar viðmiðunarfjárhæðir sem áður giltu eingöngu fyrir ríkið munu framvegis ná til sveitarfélaga. Með þessu er verið að stuðla að auknu hagræði og gagnsæi fyrir almenna bjóðendur þar sem sömu innkaupareglurnar munu gilda um innkaup opinberra aðila sem fara með almannafé.

Til að koma til móts við sveitarfélögin vegna breytinga á gildissviði viðmiðunarfjárhæða hafa aðlaganir verið gerðar á útboðsreglum frumvarpsins sem einkum hafa það markmið að slaka á tilteknum formkröfum við minni innkaup. Jafnframt hafa innlendu viðmiðunarfjárhæðirnar verið hækkaðar lítillega frá því sem er í núgildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi þriggja ára aðlögunartíma þar til almenn útboðsskylda tekur gildi gagnvart þeim og nægur tími því veittur til að laga verkferla að nýjum kröfum.

Reglur um aðferðir við opinber innkaup, innkaupaferli, eru að meginstefnu óbreyttar. Meginreglan er þannig áfram sú að opinber innkaup fari fram á grundvelli útboða, annaðhvort lokaðs útboðs að undangengnu forvali eða almenns útboðs. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um nokkrar nýjar innkaupaaðferðir eins og samkeppnisútboð og nýsköpunarsamstarf sem eru sveigjanlegri innkaupaferli með samningsviðræðum. Nýsköpunarsamstarf heimilar kaupanda og bjóðanda að vinna saman að nýsköpunarlausnum sem ekki eru þegar til staðar á markaðnum til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í samfélaginu. Samkeppnisútboð er innkaupaferli sem nýtist þegar um er að ræða þjónustu eða vörur sem krefjast breytinga eða hönnunar, t.d. við flókin innkaup á sértækri vöru, hugverkaþjónustu eða ýmiss konar ráðgjafarþjónustu.

Frumvarpið felur þá í sér einföldun á núgildandi regluverki ásamt því að auka sveigjanleika í framkvæmd opinberra innkaupa. Einnig eru festar í sessi túlkanir á eldri reglum vegna margvíslegra álitaefna sem komið hafa upp á undanförnum árum. Þannig eru til að mynda í frumvarpinu sett fram skýrari ákvæði um samvinnu milli opinberra aðila og undanþágur vegna innanhússsamninga. Mikilvægt er fyrir opinbera aðila að geta unnið saman að því að veita lögbundna þjónustu fyrir almenning. Þó er mikilvægt að slík samvinna leiði ekki til röskunar á samkeppni. Tryggja þarf jafnvægi milli hagsmuna opinberra aðila af því að skipuleggja sína þjónustu og um leið sjá til þess að fyrirtæki fái sanngjarnan markaðsaðgang.

Þá er áhersla lögð á að vara, þjónusta eða verkframkvæmd sé valin með tilliti til besta hlutfalls milli verðs og gæða. Í því felst að verð er ekki lengur meginvalforsendan. Horft verður meira til gæða, umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar um leið og áherslan er á vistferilskostnað þess sem keypt er. Með þessu er dregið úr vægi þeirrar valforsendu sem byggir eingöngu á verði þótt áfram verði heimilt að notast við slíkt. Verð hlýtur ávallt að skipta verulegu máli fyrir nýtingu skattfjár.

Til að einfalda opinber innkaup og framkvæmd þeirra er gerð sú breyting í upphafi innkaupaferlis að bjóðendur munu aðeins þurfa að leggja fram eigin hæfisyfirlýsingu þar sem þeir staðfesta að nauðsynlegar hæfiskröfur séu uppfylltar. Sá bjóðandi sem að lokum hlýtur opinberan samning í innkaupaferli mun samt sem áður þurfa að standa skil á öllum slíkum gögnum þegar ákvörðun um val á tilboði liggur fyrir. Með þessari breytingu er dregið verulega úr kostnaði og skriffinnsku fyrirtækja sem þurfa þá ekki að leggja fram fjölda af gögnum og skjölum í upphafi hvers innkaupaferlis til sönnunar á hæfi.

Frumvarpi þessu er jafnframt ætlað að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að leggja fram tilboð. Kaupendur eru af þessum sökum hvattir til að skipta samningum upp í minni hluta í stað þess að bjóða allt út í einu þegar það er mögulegt til að stuðla að aukinni samkeppni. Þá eru einnig settar fram reglur um hámarkskröfur um fjárhagslega getu, þ.e. að krafa um eigið fé megi að jafnaði ekki nema hærri fjárhæð en nemur tvöfaldri fjárhæð kostnaðaráætlunar samnings til hagsbóta fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Það er mikilvægt áherslumál að gera smærri fyrirtækjum betur kleift að keppa um viðskipti við hið opinbera. Með einföldum hætti er hægt að gera það eins og þessi dæmi sýna.

Í frumvarpinu eru ákvæði sem heimila opinberum aðilum í ríkari mæli að taka tillit til umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar eins og ég hef aðeins komið inn á hér áður. Það er ekki gert með því að stýra innkaupum í ákveðnar áttir heldur með því að veita opinberum aðilum tækifæri til að leggja áherslu á framangreind atriði við sín innkaup. Ég hef einnig nefnt hér að félagsleg sjónarmið geta þar komið til skoðunar og að auki mega kaupendur gera kröfur um sérstök merki til vottunar á að vara, verk eða þjónusta taki sérstakt tillit til umhverfis eða félagslegra markmiða svo lengi sem valforsendur og eiginleikar merkisins tengjast framkvæmd samningsins og sambærileg merki eru samþykkt.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um færri undanþágur frá almennu gildissviði innkaupareglnanna. Þess í stað er kynnt til sögunnar ný málsmeðferð sem nota má um tiltekna þjónustu á sviði heilbrigðis-, félags- og menningarmála. Viðmiðunarmörk vegna skyldu til útboðs eru hærri en vegna annarra þjónustusamninga ásamt því sem málsmeðferðin er einfaldari þar sem einungis ber að auglýsa innkaupin fyrir fram með almennri auglýsingu. Þá verður jafnframt heimilt að takmarka aðgengi að innkaupaferlum um tiltekna þjónustu við ákveðin fyrirtæki sem uppfylla sérstök skilyrði, t.d. fyrirtæki sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða ef ástæða þykir til.

Virðulegur forseti. Ákvæði frumvarpsins um Ríkiskaup eru efnislega sambærileg ákvæðum gildandi laga. Þó er kveðið skýrar á um það að öðrum opinberum aðilum, þar með talið ríkisfyrirtækjum, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum á vegum sveitarfélaga, er heimilt að nota þjónustu innkaupastofnunarinnar í samræmi við eigin þarfir hverju sinni. Meginhlutverk Ríkiskaupa er að vera miðlæg innkaupastofnun sem annast innkaup fyrir ríkisstofnanir með gagnsæjum og hagkvæmum hætti í samræmi við þær innkaupareglur sem settar hafa verið. Þá er einnig skerpt á því hlutverki Ríkiskaupa að beita sér fyrir samræmdum innkaupum og rannsaka sameiginlegar þarfir ríkisins á vörum og þjónustu.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði að aflokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr.