145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Evrópska efnahagssvæðið.

688. mál
[13:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Tilefni þeirra breytinga sem hér eru lagðar til er að nýrri bókun, bókun 38c, hefur verið bætt við EES-samninginn, sem kallar á breytingu á 117. gr. í meginmáli samningsins, en það ákvæði hefur lagagildi hér á landi. Bókun 38c felur í sér samkomulag á milli EES/EFTA-ríkjanna og ESB um áframhaldandi framlög þeirra í uppbyggingarsjóð EES næstu sjö árin. Eins og þingmönnum er kunnugt hafa EES/EFTA-ríkin frá upphafi innt af hendi fjárhagsleg framlög vegna EES-samningsins til þeirra ríkja innri markaðarins sem lakast standa efnahagslega. Afstaða ESB er sú að það sé óaðskiljanlegur þáttur af því að vera þátttakandi á innri markaðnum. Afstaða EES-ríkjanna innan EFTA hefur ávallt verið sú að leggja áherslu á að engin lagaleg skuldbinding hvíli á ríkjunum um framlög af þessu tagi. Af þeim sökum er um að ræða tímabundna ráðstöfun.

Þetta er í sjötta sinn sem samið er um þessi framlög og því ekki í fyrsta sinn sem málið kemur til kasta Alþingis. Að þessu sinni, líkt og fyrr, gerði ESB afar háar kröfur um aukin framlög, sem hafnað var af hálfu EES/EFTA-ríkjanna. Af þeim ástæðum urðu viðræðurnar mjög tímafrekar líkt og áður. Lá fyrir af hálfu EFTA-ríkjanna allt frá upphafi að hækkununum á framlögum yrði haldið í lágmarki. Niðurstaða viðræðnanna varð á endanum sú að EES-ríkin innan EFTA féllust á um 11% hækkun framlaga, sem felur í sér tæplega 100 millj. kr. á ári fyrir Ísland miðað við núverandi landsframleiðslutölur og gengi. Sú hækkun er töluvert undir verðlagsbreytingum frá 2009 en gert er ráð fyrir að framlag Íslands í heild sinni verði 7 milljarðar króna yfir allt tímabilið, sem að þessu sinni spannar sjö ár.

Rétt er að hafa hugfast að samhliða þessum samningi hefur samningur við ESB um tollfrjálsa innflutningskvóta á tilteknum sjávarafurðum til ESB verið endurnýjaður. Kvótarnir aukast verulega auk þess sem samið var um nýjan kvóta fyrir niðursoðna þorsklifur. Fyrir dyrum stendur að hefja viðræður við styrkþegaríkin um það hvernig þessum fjármunum verði ráðstafað innan þeirra forgangssviða sem bókunin tekur til. Ísland mun í því efni leggja áherslu á verkefni sem meðal annars tengjast loftslagsmálum með sérstakri áherslu á að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar. Standa vonir til þess að nokkur ríki muni setja slík verkefni í forgang sem skapar tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og íslenska þekkingu.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. utanríkismálanefndar.