145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:44]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni velferðarnefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir yfirferðina. Aðeins við að lesa tillöguna, af því að við lifum nú einu sinni í svona hraðadýrkandi skyndilausnasamfélagi þar sem tilvera barna og unglinga hefur verið markaðsvædd, þá finnst mér tónninn vera svolítið sá að það eigi að grípa inn í en ekki að fyrirbyggja. Mér finnst vanta í heildina í tillögunni þann tón að vera til staðar og byrgja brunninn frekar en að eyða orkunni, tímanum og peningunum í það þegar maður er fallinn ofan í.

Eitt finnst mér kannski aðeins vanta almennt um málið. Við þurfum að rannsaka meira hagi fólks því að ekki getur það verið eðlilegt, og kannski er eitthvað í samfélagsgerð okkar sem er þess valdandi, að öryrkjum fjölgar mjög á geðrænu sviði. Er kannski eitthvað að í samfélaginu sem við þurfum einmitt að rannsaka og skoða, sérstaklega hjá börnum og unglingum? Um þau börn og unglinga er mikið til af upplýsingum, t.d. í riti sem kemur út á hverju ári sem heitir Ungt fólk og er mjög gagnlegt rit. Ég hvet þingmanninn náttúrlega til að skoða það, það er mjög gagnlegt. En ég held að við verðum að vera svolítið meira í því að kanna hagi fólks í dag til að geta eytt orku, tíma og peningum meira í það að fyrirbyggja frekar en að vera alltaf að bregðast við.