145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:48]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin.

Þingsályktunartillagan felur í sér eina spurningu — mér er annt um öll þau mál sem koma frá ríkinu, því stjórnsýslustigi — sem er einhver skuldbinding fyrir sveitarfélögin. Það má svolítið lesa í það að þar sé verið að setja einhverjar skuldbindingar eða jafnvel fjárhagslegar kvaðir á sveitarfélögin.

Hv. þingmaður nefndi vakningu um geðheilbrigðismál. Það er alveg rétt. Það varð ofboðslega mikil vakning um vandann, mjög mikil vakning um vandann sem blasir við, en ég held að ekki sé mikil vakning hins vegar um það af hverju vandinn stafar. Ég held að það vanti svolítið inn í tillöguna.

Af því að þingmaðurinn vék að greiningum þá er það einhvern veginn þannig, held ég, að menn bíða fyrst mjög lengi eftir greiningum, það þekki ég sjálfur starfandi í grunnskóla, menn bíða jafnvel í ár eða eitt og hálft ár, því miður, svo þegar greiningin liggur fyrir þá er vandinn fundinn og leystur. Þá á bara að taka eitthvert annað skref. Kerfið er svolítið þannig uppbyggt að þegar greiningin liggur fyrir þá er málið búið. Það vantar að leysa það.

Hér sem dæmi kemur fram í kafla B á bls. 4, með leyfi forseta:

„B.2 Settur verði á fót starfshópur til að gera tillögur um geðræktarstarf í skólum.“

Þetta eitt og sér er til staðar nú þegar. Við erum með námskrá í lífsleikni. Það er eitthvað sem við getum notað. Nær væri til dæmis að setja peninginn í það, nota orku, krafta, tíma og peninga í það sem við erum þegar að gera. Við erum með sérgrein sem heitir lífsleikni þar sem verið er að kenna mjög margt af því sem fjallað er um hér.

„B.3 Skimað verði fyrir kvíða, þunglyndi og áföllum …“.

Það er gert. Það er til mjög mikið af upplýsingum um það. En svo gerist ekkert þegar niðurstaðan liggur fyrir. Þar stoppar kerfið alltaf einhvern veginn. Það þarf að gera meira í því í þessari þingsályktunartillögu, að nýta krafta, orku, tíma og peninga meira í það.