145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið.

Ég tel og held að við séum langflest hér á landi sammála því að stórefla þurfi aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu. Ég vil segja: Ég tel þau skref sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið í því skynsamleg, þ.e. að byrja með slíkt í heilsugæslunni eins og hann hefur gert í áherslum sínum. Ég er ánægð með að hann byrji þau skref þar. Ég hefði viljað sjá þau stærri, það dreg ég ekki dul á, en ég tel skynsamlegt að byrja með þjónustuna í heilsugæslunni.

Varðandi greiðsluþátttökuna þá verður að líta til sálfræðiþjónustunnar. Þetta er viðkvæmt því að þjónustan yrði hár útgjaldaliður. Mikil þörf er fyrir slíka þjónustu sem fólk borgar úr eigin vasa í dag, ef það hefur þá efni á því yfir höfuð. Það er mismunun þarna. Það er auðvitað fjöldi fólks sem hefur ekki efni á að leita sér nauðsynlegrar þjónustu.

Ofan á það langar mig að segja að — nú gleymdi ég, hæstv. forseti, hvað ég ætlaði að segja. Ég er búin að tala svo mikið hérna í dag.

En það er sem sagt mismunun í því hverjir geta leitað sér sálfræðiþjónustu. Já — og svo er í boði ýmis þjónusta á vegum SÁÁ, á vegum Rauða krossins, á vegum fleiri aðila sem er gjaldfrjáls eða ódýrari. En það er bara mikill frumskógur fyrir fólk (Forseti hringir.) og mjög mikil hætta á að út af kostnaði og takmörkuðu aðgengi fái fólk ekki viðeigandi þjónustu.