145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ábendingarnar og við ræðum það einmitt í niðurlaginu að við teljum að það þurfi að gera mun betur en lagt er upp með þó að við fögnum því sem þó gert er.

Nú er það svo að greiðsluþátttakan, sem sagt breyting á greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu er í umsagnarferli til 1. maí að mig minnir. Ég er svo sannfærð um að þar munum við fá mjög miklar ábendingar um þann alvarlega skort. Verið er að taka inn þjálfunina í það greiðsluþátttökukerfi en þar er ekki verið að taka inn sálfræðiþjónustu eða aðra slíka fagþjónustu vegna andlegrar heilsu. Það er mjög alvarleg brotalöm í íslensku heilbrigðiskerfi.

Með því að hafa þetta kerfi svona þá erum við svolítið að segja: Geðheilbrigðismál eru bara persónuleg vandamál hvers einstaklings. Á meðan líkamlegir kvillar eru eitthvað sem við greiðum fyrir úr sameiginlegum sjóðum að miklu leyti þó að greiðsluþátttakan sé of há, þá erum við í raun og veru að gefa þau skilaboð að ef fólki líður illa og býr við skert gæði út af andlegri vanlíðan þá sé það eiginlega persónulegt vandamál sem það verði að finna út úr einhvern veginn sjálft.

En þannig er það auðvitað ekki því að geðheilbrigðismál eru heilbrigðismál eins og hver önnur og eru oft rótin að líkamlegum kvillum. Við þurfum að breyta þessu kerfi þannig að við getum öll fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, okkur að kostnaðarlausu eða á sem viðráðanlegasta verði.