145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að á sínum tíma var ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi taka fyrir allar skýrslur Ríkisendurskoðunar er að þær féllu sumar hverjar á milli og fengu enga umfjöllun. Ég er svo sem alveg hlynnt því og ég er mjög ánægð með það fyrirkomulag sem hefur verið í nefndinni, þar sem mér finnst við einmitt vinna mjög vel saman þvert á flokka og komumst yfirleitt að góðri niðurstöðu, um það með hvaða hætti við mundum taka skýrslurnar fyrir, að fá Ríkisendurskoðun til okkar og svo hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir. Oft er umfjöllunin mjög góð. Það var mjög góð umfjöllun um þessa skýrslu. Það sem vakir fyrir okkur er ekki síst að sýna að hér er þingið, fulltrúar úr öllum flokkum, að ræða um skýrsluna. Ráðuneytinu ber að bregðast við. Við erum svolítið að spyrja: Hvað ætlið þið að gera? og vera þetta aðhald.

Ég veit að í einhverjum tilfellum hefur fjárlaganefnd tekið fyrir skýrslu í raun svolítið upp á sitt eindæmi og sagt: Hér er skýrsla sem varðar fjárhagslegt málefni. Við viljum ræða hana. Gott ef Ríkisendurskoðun kom ekki á þann fund, kannski var það tvíverknaður. En hitt væri þá að halda sameiginlega fundi og það held ég að gæti jafnvel orðið of mikið. Kannski eru einmitt þær skýrslur sem eru svona „pjúra“ fagnefndarskýrslur ekkert svo margar. En af því að þetta mál er svo mikilvægt og stórt og betra að sem flestir þingmenn séu vel inni í því og geti spurt ráðuneyti, skýrsluhöfunda og landlæknisembættið og þá sem koma að, þá finnst mér ekkert óeðlilegt að nefndir kalli aðila aftur fyrir. Ég held við höfum einhvern tímann verið með sameiginlegan fund, mig minnir það, en mér finnst mjög mikilvægt að ein nefnd taki að minnsta kosti allar skýrslurnar, af því að þetta var vandamál, og það er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og allir eiga fulltrúa þar. Síðan höfum við stundum vakið athygli þingnefnda á einstaka málum, þá kannski helst (Forseti hringir.) velferðarnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd.