145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég veit að þingmálið er íslenska en ég ætla samt að segja: „God dag til våre norske kollegaer fra Stortinget“, sem eru hérna á þingpöllum. Ég biðst velvirðingar á útlenskunni.

Það sem mig langar að gera að umræðuefni í dag eru samkeppnisaðstæður á bankamarkaði, og ekki í fyrsta sinn. Yfirleitt hefur orðræðan verið þannig, alla vega frá minni hendi úr þessum ræðustóli, að ég hef talið að þar væru hlutirnir ekki í lagi, að þar ríkti fákeppni sem kæmi illilega niður á íslenskum neytendum sem borguðu allt of mikið í gjöld og vexti. Þetta ástand, sem mér finnst óeðlilegt og ekki lýsa frjálsri samkeppni, leiðir svo til hagnaðar bankanna sem má vel rökræða hvort ekki sé of mikill og að þarna þurfi að ríkja meira jafnvægi.

Góðu fréttirnar eru þær að Íslandsbanki hefur nú rifið sig upp af þessum þyrnirósarsvefni og fellt niður lántökugjald fyrir kaupendur sem kaupa húsnæði í fyrsta sinn. Einnig hefur bankinn, sem skiptir mjög miklu máli, gert greiðslumatið aðgengilegt á netinu þar sem maður getur fyllt það út og fengið það afgreitt með rafrænni undirskrift. En 1% af lántökugjaldi af lánsfjárhæð er bara ansi há fjárhæð og skiptir örugglega miklu máli fyrir þá sem fjárfesta í eigin húsnæði í fyrsta sinn. Þarna bregst bankinn því við því ákalli sem fram hefur komið um að viðskiptavinirnir verði að vera hærra settir en þeir eru núna. Þess vegna er ég til dæmis fylgjandi því þegar rétti tíminn kemur að við fáum hingað erlendan banka sem (Forseti hringir.) leiðir samkeppnisstarfið, sem mér finnst skorta verulega á hér á bankamarkaði.