145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nei, það er akkúrat ekki auglýst eftir upplausn og óreiðu en hún er ríkjandi og það er það sem fólk hefur ítrekað mótmælt. Það er afar merkilegt að framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins sem taldi ekki ástæðu til að framkvæmdastjórinn færi frá vegna tengsla sinna við aflandsfélög — það sagði hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson og honum finnst bara virðingarvert að framkvæmdastjórinn skyldi láta af störfum vegna þess að það væri til þess fallið að kasta ekki rýrð á Framsóknarflokkinn og hann þakkaði honum fyrir gott starf. Sjálfur sagði framkvæmdastjórinn að hann léti af störfum vegna þess að umræðan væri svo óvægin og einsleit en það væri engin viðurkenning á því að hann hefði brotið lög eða starfað með óheiðarlegum hætti.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um forsætisráðherra landsins sem hefur sagt og lýsir því yfir að það sé í lagi að eiga fjármuni og eignir í skattaskjólum. Það varð þó til þess að formaður flokks hans sagði af sér. Hvers lags bull er þetta eiginlega?

Fjármála- og efnahagsráðherra talar nánast fyrir því að það sé í lagi að vera í skattaskjólum, enda Ísland svo sem skattaskjól að mati ráðherrans. Hann telur það þjóðinni boðlegt um leið og hann ætlar að hafa krumlurnar í því að selja eignir þrotabúanna sem þjóðin situr uppi með. Honum finnst ómerkilegt að allir sem eiga eignir og fjármuni í skattaskjólum séu settir undir sama hatt. Það er eins og ráðherra skattamála skilji ekki að það er engin leið fyrir íslensk skattyfirvöld að sannreyna að fullu hvort skattar skili sér. Það er undir eigendum þessara aflandsfélaga komið hvort þeir skila öllum gögnum og sums staðar er ekki einu sinni krafa um ársreikningagerð. Ráðherrann sem skilur ekki að berjast þarf gegn tilvist skattaskjóla á að segja af sér. Það er nauðsynlegt að hér fari fram opinber rannsókn sem við ætlum að fjalla um á eftir. Ég vona að sjálfsögðu að þingið samþykki beiðnina.

Af einhverri ástæðu (Forseti hringir.) telur fólk heppilegra að eiga eignir og fjármuni í skattaskjólum. Það er ekki af-því-bara. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa meira umleikis eru þeir sem borga ekki sinn skerf til samfélagsins. Venjulegt launafólk gerir það og tekur á sig ýmsar auknar byrðar til að svo megi verða. (Forseti hringir.) Það er allt í kringum þessa ríkisstjórn sem lyktar af spillingu og hún á að fara frá.


Efnisorð er vísa í ræðuna