145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Dr. Michael E. Porter er einn af þekktari hagfræðingum heimsins. Hann er prófessor við Harvard-háskóla og var hér á áhugaverðri ráðstefnu í Hörpu í gær. Hann var þar að kynna nýja vísitölumælingu fyrir samfélög. Í dag mælum við m.a. útgjöld og framleiðslu í mælingum okkar. Hin nýja vísitala er kölluð þjóðfélagsgæðavísitala. Hún mælir árangurinn sem við náum. Hún gerir borgarana virkari í allri samfélagsumræðu og er mælikvarði á það. Ísland er í 4. sæti í heiminum, samkvæmt niðurstöðu Michaels Porters, á eftir Noregi, Svíþjóð og Sviss. Þetta er ítarleg aðferð í raun til þess að mæla heilbrigði samfélagsins, heilbrigði samfélagsins sem við búum í. Þetta er ný nálgun í hagfræðinni á það hvernig borgarar geta verið virkir í samfélagi sínu, hverjar aðstæður borgaranna eru. Það er auðvitað gríðarlega ánægjulegur árangur og sýnir stöðuna í íslensku samfélagi í algerlega nýju ljósi.

Ég held að við hér á hinu háa Alþingi ættum að gefa því gaum. Þeir sem kjósa hér í önnum dagsins að ræða stöðugt af bölmóði og með neikvæðum hætti um stöðuna í íslensku samfélagi ættu að gaumgæfa þetta. Ég held að það sé orðið tímabært að menn taki til málefnalegri umræðu í stað þeirrar óheiðarlegu umræðu sem við verðum vitni að og á stærstan þátt í því hvar Alþingi skipar virðingarsess meðal þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Rökþrota stjórnarandstaða beitir gjarnan slíkum aðferðum (Forseti hringir.) að reyna að vilja skapa upplausn og óánægju. (Forseti hringir.) Það er tímabært að við förum að snúa við blaðinu og tökum málefnalega umræðu um málin.