145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert að heyra að menn eru farnir að nota orð eins og óvissa og upplausn í auknum mæli hér í ræðustól. Það skyldi þó ekki vera liður í kosningabaráttu sem væntanlega er að hefjast.

Það sem mig langaði til að ræða um er hvernig við vinnum mál á Alþingi. Mig langar sérstaklega, af því að ekki er alltaf auðvelt að hrósa þessari ríkisstjórn og hefur ekki verið, að hrósa fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrir það hvernig hún tók á málum varðandi nýju útlendingalögin. Að koma inn í ráðuneyti, halda áfram með vinnu sem þegar er í gangi, skipa þverpólitískan þingmannahóp til að vinna það mál, reyna að gera það í sátt og samlyndi, það er alveg til fyrirmyndar. Ég skil ekkert í því að ráðherrar geri ekki meira af þessu.

Þegar farið er yfir þennan langa lista ríkisstjórnarinnar sér maður alls konar mál. Til dæmis er talað um frumvarp um LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég hefði haldið að það væri dæmigert mál þar sem við ættum einmitt að vinna þverpólitískt saman og ég held að allir séu sammála um að gera þurfi breytingar á LÍN. Það er margt þar sem er ekki gott.

Eftir því sem meiri þverpólitísk sátt er um lög sem við setjum, þeim mun minni líkur eru á að við förum að hringla í þeim og breyta þeim. Því vil ég hvetja þá sem verða áfram hér á hinu háa Alþingi og setjast jafnvel í ráðherrastóla til að vinna málin með öðrum hætti. Við erum kosin vegna þess að við höfum skoðanir. Við viljum taka þátt í að móta stefnu, en hlutverk okkar þingmanna er í rauninni meira eða minna bara að taka við frumvörpum sem ráðuneytin eru búin að semja. Við erum í rauninni ekki í neinni stefnumótandi vinnu hérna. Til þess að gera það þarf maður eiginlega að verða ráðherra. Það er ekkert að því og bara virðingarvert að sitja sem þingmaður en maður á að geta haft meiri áhrif sem þingmaður en tilfellið er í dag.


Tengd mál