145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Norðaust. sem sagði áðan að hann segði unglingunum sínum sem hann kenndi að hann héldi að þau hefðu það hvað best hér á jörðinni. Þetta er nákvæmlega það sem ég sagði við hv. þingmann þegar ég kenndi honum á árum áður. Það er ánægjulegt að sjá hvernig skilaboðin berast áfram.

Á eftir munum við væntanlega samþykka stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til næstu fjögurra ára og er það vel. Ég vil hins vegar benda á að einn hópur sérstaklega, sem ég hef haft mikið saman við að sælda, á oft erfitt uppdráttar og það eru unglingar í framhaldsskólum landsins. Nú er staðan sú og hefur komið fram að allt að 5% einstaklinga eru með svonefnda ADHD-röskun. Það má alveg fullyrða að hátt í 10% ungs fólks í framhaldsskólum glími við ýmiss konar geðraskanir. Þess vegna tel ég afskaplega mikilvægt að menntamálaráðuneytið og velferðar- og heilbrigðisráðuneytið taki höndum saman og útfæri stefnu um vinnu með þetta unga fólk. Það skiptir okkur máli að eiga sem flesta heilbrigða einstaklinga í samfélagi okkar. Við þurfum á hverri einustu vinnandi hönd að halda þegar til kastanna kemur. Eins og forfeður okkar sögðu: Heilbrigð sál í hraustum líkama. Það er það sem við eigum öll að stefna að.


Tengd mál