145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikið gleðiefni að við séum hér að fara að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu sem felur í sér geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun með fjármagni til fjögurra ára. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sköruglega framgöngu í að láta móta þessa áætlun. Ég þakka velferðarnefnd fyrir frábæra vinnu en ekki síst öllum þeim tugum umsagnaraðila og gesta sem lögðu málinu lið. Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning í umræðu um geðheilbrigðismál og mikilvægi þeirra og það að þetta er miklu algengara, að við glímum við andlega krankleika, en almennt hefur fengið að koma fram í umræðunni þangað til á allra síðustu árum.

Þetta er fyrsta skrefið og svo sannarlega mikilvægt en á næstu árum þurfum við að stíga mun djarfari skref og ég vonast til að samstarfið á Alþingi um þau skref verði jafn gott og um þetta fyrsta.