145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er afar ánægjulegt að sjá fyrstu geðheilbrigðisstefnuna til lengri tíma líta dagsins ljós. Ég vil við það tilefni þakka velferðarnefnd sérstaklega fyrir vel unnin störf og ekki síður formanni velferðarnefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem var í rauninni upphafsmaður þessa máls með flutningi þingsályktunartillögu sem stefnan byggir hér á.

Þessi vinna sýnir okkur, það er ágætt að hafa það í huga, að þrátt fyrir allt getur þingið náð saman um mjög góð mál sem þetta. Það er ánægjulegt og gott. Við höfum núna einhvern grunn til að byggja á. Þetta er vissulega fyrsta skrefið, en þessi grunnur gefur þeim góða stöðu sem vilja fylgjast með, ýta á hluti, veita stjórnvöldum aðhald og grunn til að byggja á frekari ákvarðanir.

Ég tek undir þau orð sem komu fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan að það sé nauðsynlegt að endurskoða þessa stefnu innan eins til tveggja ára. Hann mæltist til þess að sá sem hér stendur (Forseti hringir.) gerði það og ég vænti þá öflugs stuðnings hv. þingmanns [Hlátur í þingsal.] við það verkefni. Kærar þakkir. (Gripið fram í.)