145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum að hreinsa upp þessa fjármálaskandala sem nú koma hér upp, gjósa upp eins og sveppir á sumarvelli. Við þurfum að gera það öll. Við þurfum að fara í þessa umræðu. Það er krafan í þessum sölum. Það er líka krafan fyrir utan Alþingi Íslendinga. Er það þá virkilega þannig að sú umræða á að fara fram með þeim hætti að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra ætla bara að sitja heima? Á þetta að vera eintal stjórnarandstöðunnar? Er þetta ekki fyrst og fremst mál, eins og það hefur birst okkur, sem tengist öðrum stjórnmálaflokkum fremur en þeim sem sitja í stjórnarandstöðunni? En staðan nákvæmlega núna þegar klukkuna vantar 20 mínútur í tólf er sú að níu manns eru á mælendaskrá og þeir eru allir úr stjórnarandstöðunni. Ætla hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að bara að þruma þetta mál af sér með slímusetum í stólum sínum? Ætlar enginn að koma og ræða það?

Ég tel að hér sé um að ræða mál sem er eitt mikilvægasta málið sem nú liggur fyrir Alþingi (Forseti hringir.) og miklu mikilvægari en flest þau mála sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram. Ég tel (Forseti hringir.) að menn verði að koma heiðarlega (Forseti hringir.) að þessu máli og taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)