145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór með áðan. Mér finnst við þurfa að taka mynd af auðu stólunum og setja út stóra frétt með fyrirsögn: Hneykslismálin sem Panama-skjölin upplýstu eru mál stjórnarandstöðunnar. Hér labbar einn framsóknarmaður í salinn, annar situr úti í sal, enginn ráðherra. (Gripið fram í: Enginn á mælendaskrá.) Enginn þeirra er á mælendaskrá. Þetta er hneyksli, herra forseti, og ég vona að fjölmiðlar landsins taki eftir þessari stöðu og spyrji: Hvers vegna er það ekki þverpólitískt baráttumál að rannsaka afleiðingar skattaskjóla á íslenskt samfélag og uppræta slíka meinsemd? Því er það ekki þverpólitískt mál? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)