145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:05]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það að fulltrúar ríkisstjórnarinnar skuli veigra sér við að mæta í þingsal og vera viðstaddir umræðuna þegar lögð eru fram tvö formleg þingmál sem varða eitt helsta samfélagsmeinið sem grefur um sig í samfélaginu í dag, sýnir okkur afstöðu sem er svo mikið ábyrgðarleysi. Það vantar ekki að þeir vitni í sex þingmanna þingmeirihluta sem varð til í síðustu kosningum, það vantar ekki að þeir vísi til valdsins sem þeir hafa. Þeir geta setið af því að þeir hafa sex þingmanna meiri hluta. En þeir geta ekki setið undir umræðunni. Þeir geta ekki tekið umræðuna, staðið fyrir máli sínu, varið gjörðir sínar og verið þátttakendur í því lýðræði sem ver þó þeirra valdasetu eins og sakir standa.

Þetta er ömurlegt ástand, virðulegi forseti. En ég tek undir með öðrum (Forseti hringir.) þingmönnum. Ég krefst þess að fundinum verði frestað þangað til að fjármálaráðherra að minnsta kosti sér sóma sinn í að sitja hér undir umræðum.