145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns, það er ekki ásættanlegt að hæstv. fjármálaráðherra sjái sér ekki fært að vera við umræðuna. Hann hlýtur þá að hafa ríka ástæðu til að vera ekki hérna, kannski er hæstv. fjármálaráðherra sjálfur að kanna skattaskjólin á vettvangi, ég veit það ekki. Mér finnst þetta vera það alvarlegt mál að ekki er hægt að afgreiða það með neinni léttúð. Ég geri þá kröfu almennt til stjórnarþingmanna að vera viðstaddir þessa umræðu, taka þátt í henni og skiptast á skoðunum um þau mál sem liggja hér undir, að rannsökuð sé aðkoma Íslendinga og fyrirtækja að skattaskjólum og áhrif þess á íslenskt samfélag. Það er ekki hægt að afgreiða þetta mál sem neitt tuð. Oft er það þannig þegar við í stjórnarandstöðunni förum upp í fundarstjórn forseta og ræðum alvarleg mál, þá er það afgreitt sem eitthvert tuð. Þetta er grafalvarlegt (Forseti hringir.) mál sem allir þingmenn eiga að sjá sóma sinn í að taka þátt í því að þetta varðar íslenskt samfélag það mikið.